Vatn

shui

 

Eiginleikar Vatns eru kuldi og upphaf vaxtar. Vatnið nærir fræið til þess að það geti vaxið í krafti Viðarins, eða vorsins seinna meir. Það má segja að Vatnið geymi upphafsorkuna.

Líffærin sem tilheyra Vatninu eru Nýru og Þvagblaðra. Nýrun geyma tvennskonar orku; Nýrna-Yin orkuna sem nærir og styrkir, byggir og nærir Bein, Merg og Heila, og Nýrna-Yang orkuna sem heldur líkamanum heitum og starfandi. Nýrun geyma lífsorkuna og viðhalda lífi og starfsorku. Þau eru völd að vexti og þroska mannsins, og þau stjórna hinum 7 og 8 ára þroskastigum sem kona og maður ganga í gegn um á ævinni.

Nýrun geyma einnig þá líkamsorku sem gerir okkur kleift að eignast heilbrigð börn og þau eru sögð stjórna ævilengdinni.

Tími líffæra Vatnsins er 15 - 17 fyrir Þvagblöðru og 17 - 19 fyrir Nýrun.

Tilfinningin sem tengist Vatninu er hræðsla og ótti og sá sem þjáist af veikleika í Nýrum stríðir iðulega við einhverskonar kvíða.

Andleg hlið Vatnsins er Zhi sem er viljakraftur okkar og lífslöngun.

Vatnið er sterkast á veturna en veikast á sumrin.