Eldur

huo

 

Eiginleikar Eldsins eru hiti og skapandi tunga, þ.e.a.s. hugmyndaríki og frásagnar- og tjáningarlist.

Tilfinning Eldsins er gleði og hlátur.

Líffærin sem tilheyra Eldinum eru Hjarta og Smágirni, Hjartaverndari, eða Gollurhús, og Þrír hitarar.

Tími Þessar líffæra er 11-13 fyrir Hjartað, 13-15 fyrir Smágirni, 19-21 fyrir Hjartaverndara og 21-23 fyrir Þrjá hitara.

Andleg hlið Eldsins er Shen, sem hefur það hlutverk að leiða okkur í gegn um hvert andartak og þær aðstæður sem skapast í daglegu lífi. Shen er bein tengsl okkar við hið guðlega.

Eldurinn er sterkastur á sumrin og veikastur á veturna.

Vestræn vísindi sjá eingöngu tvö af þessum líffærum Eldsins sem líffæri eins og reyndar Kínverjar gera líka. Hjartaverndari og Þrír hitarar eru í raun starfsemi frekar en líffæri.
Hjartaverndari ver Hjartað og sér um að koma boðum þess til hinna líffæranna og er móðir allrar Yin orku í líkamanum.
Þrír hitarar eru hreyfing á orku og líkamsvökva og er litið á Þrjá hitara sem föður Yang-orku líkamans.

Eldurinn hefur mikið með geð og svefn að gera, hitastig líkamans og eiginleika mannsins til að gleðjast og hlæja.
Ef Eldurinn er ekki í jafnvægi, er stutt í svefnörðugleika og þunglyndi. Ef orka Þrískipta brennara veikist um of, sem getur skeð ef líkamanum er ekki haldið á hreyfingu, verður manneskjan kulsækin, einkum á útlimum, og þreytt og viljalítil.

Ef Eldsfrumaflið er í ójafnvægi myndast ójafnvægi í orku allra líffæranna og orkubrautanna sem því tengjast og vegna sérstöðu Elds hvað varðar andlegu hliðina bitnar ójafnvægi þar oft á geði. Manneskjan verður þá oft gleðisnauð og ímyndunaraflið daprast. Sköpunargleði minnkar og tjáning verður erfið.

Eldurinn tengist hita og er nærður af vori og sumri og er því oft mjög vannært frumafl hjá fólki á Norðlægum slóðum, sérstaklega þar sem bæði er kalt og dimmt eins og hér á Íslandi. Til þess að vega á móti áhrifum eilífs vetrar er því mjög mikilvægt að hreyfa líkamann reglulega en það er hitagefandi og ástunda gleðiaukandi athafnir sem koma fólki til að hlæja og treysta á allt annað en áfengi og fíknilyf því slíkir gleðigjafar eru skammvinnir og spilla Eldinum.