Saga kínverskra nálastungulækninga

Talið er að bækur um lækningar með nálastungum hafi fyrst verið skrifaðar í Kína á árunum 2696 til 2598 fyrir Krist af Huang Di, Gula keisaranum, á þriðja mikla keisaratímabilinu í Kina. Margar bækur um nálastungur eru til frá tímum Gula keisarans og er ein sú merkasta í þessum fræðum til í enskri þýðingu Ilza Veith: The Yellow Emperors Classic of Internal Medicine.

Það var ekki fyrr en um þrjú þúsund árum síðar að skriður komst á skrif um Kínverska læknisfræði, á Han tímunum. Margar merkilegar bækur voru skrifaðar á þeim timum, meðal annars bókin Huang Ti Nei Ching Yellow Emperors inner classic sem var gefin út með Su-wen (basic questions, eða Simple Questions) og Ling Shu (mysterious pivot). Á hinu vestræna Jin tímabili (265-316 e. Kr), var bókin Zhen Jiu Jia Y. Jing síðan skrifuð (Comprehensive Manual of Acupuncture Moxibustion) og er hún elsta varðveitta ritið sem fjallar um nálastungur og moxatækni eingöngu.

Árið 1671 kynnti Jesúítapresturinn P.P. Harviell, S. J. nálastungufræðin fyrir Evrópu, nánar tiltekið Frakklandi með bók sinni Les secrets de la Medicine des Chinois, Consitant en al Parfaite Connoissance du Pauls.

Árið 1683, skrifaði Wilen Pen Rhijne, M.D. bók sem ber nafnið Dissertatia de Arthritide. Rhijne var Hollenskur læknir af Indverskum uppruna sem vann við skurðlækningar í Japan. Hann kynnti með bók sinni tækni við notkun nálastungna til lækninga. Bókin vakti óskipta athygli og mikla forvitni lækna á þeim tíma.

Árið 1758 skrifaði Lorenz Heister, M.D. grein um nálastungur, Chiraigeies. Hann var fyrsti vestræni skurðlæknirinn sem mælti með nálastungum til lækninga.

Árið 1820 var farið að kenna nálastungur í Frakklandi á sumum af bestu spítölum landsins. Með Frakka í fararbroddi í evrópskum nálastungulækningum, fylgdu Hollendingar og Þjóðverjar fast á eftir og nálastungur urðu “endurfæddar” í Evrópu á árunum 1820 – 30.

Árið 1916, skrifaði Sir William Osler B.T., M.D. ritgerðir í það merka tímarit The Principles and Practice of Medicine. Þar sagði hann m.s. að nálastungur væru besta meðferðin við bakverkjum.

En það var ekki fyrr en árið 1971 að nálastunglækningar hlutu viðurkenningu og fastan sess í Vesturheimi sem verðug leið til lækninga. James Reston, blaðamaður hjá New York Times, skrifaði þá um gagnsemi nálastungulækninga. Hann var þá í föruneyti Richard Nixons, forseta Bandaríkjanna, í opinberri heimsókn hans til Kína, þegar hann veiktist af bráðri botnlangabólgu og var skorin upp af lækni sem notaði nálastungur sem deyfingu í stað svæfingarlyfja. Verkir eftir skurðaðgerðina voru einnig meðhöndlaðir með nálastungum á Anti-Imperialist Hospital í Beijing í Kína.

Skrif Restons hrintu af stað rannsóknum og skrifum um gagnsemi nálastungulækninga. Læknar og tannlæknar lærðu þessa aðferð til deyfinga og síðar tóku aðrir sig til og námu fræðin til hlítar og hófu að nota nálastungulækningar sem meðferð við hinum ýmsu kvillum. Síðan þá hafa nálastungulækningar sótt í sig veðrið á Vesturlöndum og á undanförnum 10-15 árum hefur komið út fjöldi bóka um nálastungulækningar.

Nálastungur á Vesturlöndum eru enn þann dag í dag mikið notaðar sem hluti af verkjameðferð og deyfingu vegna þess hversu auðvelt það er að nema þann hluta fræðanna. Þannig hafa meðferðaraðilar getað nýtt sér þessa tækni, að vísu með stundum misjöfnum árangri, án þess að leggja í þá miklu vinnu sem nám á kínverskri læknisfræði krefst. Nálastungumeðferðin sem byggir á hugmyndafræði kínverskra lækninga virðist bæði framandi og órökrétt í huga vestrænna lækna og annarra sem stunda lækningar í anda vestrænna vísinda og víkur hún því oft fyrir auðveldari leiðinni, þ.e.a.s. einfaldri örvun á aumum punktum með nálum. Það er sá angi kínverskrar nálastungutækni sem vestrænir læknar og meðferðaraðlar hafa helst stundað.

Þessir aumu punktar eru ekki endilega staðsettir nálægt verkjum sem kvartað er um og eru nefndir ýmsum nöfnum svo sem “aumir-punktar”, “trigger-punktar” eða “hreyfi-punktar”. Vísindamenn á Vesturlöndum hafa reynt að leita skýringa á virkni nálastungupunktanna og hafa komið fram með þá kenningu
að Qi sé í raun hluti af taugaboðefnakerfi líkamans.

Frægur bæklunarskurðlæknir, Robert O. Becker, sem tvisvar hefur verið útnefndur til Nóbelsverðlauna í læknisfræði, hefur skrifað um þetta efni bók: Cross Currents: The Promise of Electromedicine; The Perils of Electropollution

Vestræn vísindi hafa einnig átt í erfiðleikum með að skýra út hvers vegna ákveðnir punktar á líkamanum, örvaðir með hárfínum nálum, geta haft áhrif á sársauka og sjúkdóma, enda framandi fyrir hugsun sem gerir ekki ráð fyrir flæði orkunnar um líkamann. Ein skýring hefur þó hlotið nokkurn hljómgrunn á Vesturlöndum, að örvun á taugaendum á einum stað á líkamanum örvi heilastöðvar sem stjórna líkamshreyfingum og starfsemi annars staðar. Sem dæmi má taka að örvun á mismunandi taugaendum sem liggja á línu frá innanverðum litla fingri, upp lófann, innanverðan handlegg og upp í holhönd, alls níu punktar, hafi áhrif á þann hluta heilans sem stjórnar Hjartanu. Þessi lína er samkvæmt kínverskri læknisfræði nefnd Hjartabraut.

Kínversk læknisfræði skýrir virkni nálastungulækninga á annan hátt.

Sérhönnuðum, örfínum nálum er stungið í punkta á orkubrautum sem liggja eins og vafningur um líkamann. Þegar nálin er komin á sinn stað, í miðju punktsins, kemst hún í snertingu við Qi þess punkts sem stungið er í og hefur áhrif á flæði þess – þetta finnur manneskjan sem stungin er með tilfinningu sem er eins og örfínn straumur sem liggur frá punktinum. Meðhöndlunin á Qi punktunum hefur síðan áhrif annars staðar í líkamanum og hefur Qi hvers og eins af hinum 364 höfuð-punktum orkubrautanna sitt sérstaka hlutverk. Innsetning nálastungunála í suma punkta hefur styrkjandi áhrif og í aðra deyfandi áhrif, í suma kælandi áhrif og í aðra vermandi áhrif.

Kínversk læknisfræði skýrir virkni hvers Qi punkts nákvæmlega og gerir virkni nálastungulækninga skiljanlega í gegnum fræðin sem búa þar að baki. Í dag eru þessi fræði kennd í virtum skólum í flestum löndum heims og nálastungulækningar njóta æ meiri vinsælda og viðurkenningar á Vesturlöndum.