Kínversk læknisfræði

Kínversk læknisfræði eru forn fræði sem hafa verið með manninum í mörg þúsund ár. Þau eiga sér rætur í heimspeki, rökhugsun, skynjun og venjum siðmenningar sem er Vesturlandabúum afar framandi og sem mörgum kann að virðast sem hindurvitni. Í reynd eru kínversk læknisfræði samofið og sjálfstætt kerfi hugsunar og iðkunar sem hafa verið í þróun í mörg þúsund ár. Fræðin eru grundvölluð á fornum ritum og eru árangur stöðugrar leitar gagnrýninnar hugsunar sem og víðtækrar klínískrar athugunar og tilrauna. Þau standa fyrir gagngera kerfisbundna framsetningu og endurskoðun á efni virtra lækna og kenningasmiða.

Í kínverskum lækningum eru ákveðnir þættir mannslíkamans og skapgerðarinnar taldir mikilvægir sem aftur á móti skipta ekki máli í vestrænum lækningum. Sömuleiðis er í vestrænum lækningum lögð áhersla á þætti við mannslíkamann sem kínverskar lækningar telja ekki skipta máli eða hreinlega skynja ekki.

Í kínverskri læknisfræði og heimspeki er meðal annars fjallað um upphaf lífsins, eða Daoið, hinn óséða mátt sem með mikilli sprengingu varð að öllu sem er.

Út frá sprengingunni urðu fyrst til hin tvö andstæðu öfl, Yin og Yang.
Yin, sem er þyngra og efnismeira sökk en Yang, sem er léttara og efnisminna flaut og varð ofan á.
Yin og Yang eru talin hin miklu skapandi öfl, eilífir áhrifavaldar á orku Himins, Jarðar og Manns.

“Dao gaf af sér eitt.
Eitt gaf af sér tvennt.
Tvennt gaf af sér þrennt.
Og þrennt gaf af sér hinar tíu þúsund verur.
Hinar tíu þúsund verur bera með sér Yin og umvefja Yang. Þær öðlast jafnvægi með því að sameina þessi öfl”

(Lao Tzu, Tao Te ching).

Hugtök kínverskrar læknisfræði: Yin og Yang, Himinn – Jörð – Maður, Hinar fjórar árstíðir, Frumöflin fimm, Skiptingarnar sex, Tilfinningarnar sjö, Hinar átta orsakir sjúkdóma og ójafnvægis og Líkamssvæðin níu eru rakin frá þessum eina sameiginlega punkti, eða Daoinu.

Skilningur lækna og meðferðaraðila þessara fræða á lífeðlisfræði mannslíkamans, sálfræði og sjúkdómafræði, ásamt vitneskjunni um meðferðarleið við ójafnvægi mannslíkamans byggist á þessum fræðum og án skilnings á fræðunum má segja að meðferðaraðilinn stundi ekki kínverska læknisfræði.

Í skrifum mínum hér hefur sá háttur verið hafður á – og er það í samræmi við langa hefð í slíkum skrifum á Vesturlöndum – að nöfn líffæranna í kínverskum lækningum eru rituð með stórum staf til að gera annarsvegar greinarmun á hlutverki þeirra eins og kínverskar lækningar sjá það og hinsvegar með litlum staf þegar rætt er um líffærið eins og það er skilgreint samkvæmt vestrænum lækningum. Sömuleiðis er ritaður stór stafur í kínverskum hugtökum sem hafa aðra merkingu þar en samhljóða hugtök í vestrænum lækningum.