Grasalækningar

Listi yfir íslenskar lækningajurtir, tekið úr bók Arnbjargar Lindu “Íslenskar lækningajurtir – söfnun þeirra, notkun og áhrif”.

A B E F G H I J K L M N R S T U V Þ Æ

A

Aðalbláberjalyng

Vaccinium myrtillus − lyngætt

Nýttir plöntuhlutar: Blöð og ber.
Söfnun: Snemma í ágúst.
Virk efni: Lífrænar sýrur, slímefni, sykrur, ýmis steinefni, barksýrur og A-, B- og C-vítamín.
Áhrif: Barkandi, sýkladrepandi, kælandi. Blöðin lækka sykurmagn í blóði.
Notkun: Þurrkuð ber og blöð eru mjög góð gegn þrálátum niðurgangi og einnig gegn særindum og bólgu í þörmum.
Þá má nota þau í skol gegn bólgu og særindum í munni.
Fersk ber virðast koma reglu á hægðir (nema þau séu etin í óhóflegu magni, þá geta þau valdið niðurgangi hjá sumum). Berin örva matarlyst og eru talin reka út spóluorma.
Blöðin eru góð við blöðrubólgu (sérstaklega þeirri sem orsakast af saurgerlum), við blöðruhálskirtilsbólgu og til þess að minnka sykurmagn í blóði.
Kínversk fræði: Blöðin eru kælandi og má nota við Hita í þvagblöðru, ristli og blöðruhálskirtli.
Varúð! Blöðin geta valdið eitrun séu þau notuð lengur en 3−4 vikur í senn. Blöðin eru ekki æskileg fyrir börn.

Augnfró

Euphrasia frigida − grímublómaætt

Nýttir plöntuhlutar: Öll jurtin í blóma, að rótinni undanskilinni.
Söfnun: Júlí og ágúst.
Virk efni: Sykrungar, þ. á m. ákúbín, barksýrur, kvoðungur og ilmolíur.
Áhrif: Herpandi, bólgueyðandi, slímþurrkandi (kvefrennslislyf) og styrkjandi fyrir slímhúð.
Notkun: Augnfró er ein besta jurtin sem hér er völ á við þrálátu nefkvefi, bólgu í ennisholum og lungnakvefi. Jurtin styrkir slímhúð og þurrkar upp óhóflega mikið slím þannig að hún virkar einnig gegn iðrakvefi.
Augnfró hlaut nafn sitt fyrir lækningamátt sinn við hvers kyns krankleika í augum. Til þeirra nota gefst vel að baða augun með urtaveig (þynntri með vatni) eða veiku tei af jurtinni. Augnfróin er meðal annars talin góð við augnangri, skýi á auga og viðkvæmum og sárum augum.
Kínversk fræði: Augnfró er kælandi og styrkir Miltað og Lungu. Hún hjálpar Miltanu við vinnslu á orku úr fæðunni og eyðir Raka.

B

Beitilyng

Calluna vulgaris − lyngætt

Nýttir plöntuhlutar: Blómtopparnir.
Söfnun: Ágúst og september.
Virk efni: Sítrónsýra, fúmarsýra, beiskjuefnið erikódín, barksýrur, arbútín, flavonar og sykrungar.
Áhrif: Þvagdrífandi og eyðir sýklum úr þvagi, bólgueyðandi, einkum fyrir gigt, græðandi og vægt róandi.
Notkun: Beitilyngið er gott við sýkingu í þvagfærum, sérstaklega við blöðrubólgu. Beitilyngið gefur góða raun við alls konar gigt, einkum þó þvagsýrugigt. Einnig er gott að drekka beitilyngste að kvöldi fyrir þá sem þjást af svefnleysi.
Mjúk smyrsl sem búin eru til úr beitilyngi eru mjög góð til að nudda inn í húðina þar sem gigt er slæm. Smyrslin deyfa verkina og eyða bólgunni.
Kínversk fræði: Beitilyng er kælandi og styrkir Nýrna Yin. Það er nærandi fyrir bein og liði, eyðir Hita og er nærandi fyrir konur á breytingaskeiði sem þjást af svefnleysi, nætursvita og þurrki í slímhúð.

Birki

Betula pubescens – bjarkarætt

Nýttir plöntuhlutar: Ný laufblöð, börkur af yngstu greinunum og safi.
Söfnun: Að vori til. Særa þarf börkinn inn í merg skömmu fyrir laufgun til að ná í safann (birkivatnið). Hann er síðan látinn drjúpa í söfnunarílát. Reynt skal að særa hvert tré eins lítið og komast má af með.
Virk efni: Sápungar, ilmolíur sem innihalda m.a. betúlín, kvoðungar, flavonar, barksýrur og bitur efni.
Áhrif: Þvagdrífandi, bólgueyðandi, svitadrífandi, örvar lifrina og hreinsar blóðið.
Notkun: Birki er mest notað við alls konar gigt, einkum ef nýrun starfa ekki eðlilega. Það er því mjög styrkjandi fyrir nýrun, hvort sem sýking hrjáir þau eða aðrir kvillar. Birkið er sérstaklega gott með öðrum jurtum sem vinna beint á gigtinni, s.s. mjaðurt og horblöðku.
Birki reynist stundum vel við sóríasis-exemi og gigt.
Birki er blóðþrýstingslækkandi og bjúgeyðandi. Þá eru smyrsl soðin úr
birkilaufi og berki græðandi útvortis.
Kínversk fræði: Birki styrkir Nýrna Qi og Yin. Það hefur góð áhrif á bein og liði og eyðir Hita. Það styrkir einnig Lifur og aðstoðar við endurnýjun og hreinsun á Blóði.

Bjöllulilja

Pyrola grandiflora − vetrarliljuætt

Nýttir plöntuhlutar: Blöðin.
Söfnun: Á sumrin fyrir blómgun.
Virk efni: Jurtin hefur lítið verið rannsökuð, þó er vitað að í henni eru barksýrur.
Áhrif: Barkandi, styrkjandi, þvagdrífandi og krampastillandi.
Notkun: Bjöllulilja er talin góð við særindum og bólgu í meltingarvegi. Einnig hefur hún verið notuð við særindum í þvagrás, einkum ef særindin stafa af steinum eða sandi í nýrum. Bjölluliljan er talin hafa styrkjandi áhrif á legið og hefur þess vegna verið notuð til að stilla of miklar blæðingar og milliblæðingar hjá konum. Bjölluliljan er gott sárameðal og er þá notað te eða áburður á alls kyns exem og sár sem vilja gróa illa.
Þá þykir veikt te af jurtinni gott skol fyrir viðkvæm og bólgin augu.
Kínversk fræði: Bjöllulilja er kælandi og styrkir Lifrar-orku.

Blágresi

Geranium sylvaticum − blágresisætt

Nýttir plöntuhlutar: Öll jurtin með rót.
Söfnun: Fyrri hluta sumars áður en plantan blómgast.
Virk efni: Barksýrur, kvoðungar, geranín og sýrur.
Áhrif: Græðandi, herpandi, hægðastillandi og
bólgueyðandi.
Notkun: Blágresið er talið gott við bólgu og sárum í meltingarvegi, einnig er jurtin notuð gegn niðurgangi.
Blágresið hefur lengi haft gott orð á sér sem lyf við alls kyns gigt, sérstaklega þvagsýrugigt. Blöðin eru góð til útvortis notkunar. Þau eru soðin og lögð við sár sem gróa treglega og við illa marið hold og langvarandi exem. Einnig má nota te af blöðunum sem skol við útferð úr leggöngum.
Kínversk fræði: Blágresi er kælandi og styrkir Nýrna Yin.

Blákolla

Prunella vulgaris − varablómaætt

Nýttir plöntuhlutar: Öll jurtin í blóma, að rótinni undanskilinni.
Söfnun: Allt sumarið.
Virk efni: Bitur efni, barksýrur, ilmolíur og sykrur, K-, B1- og C-vítamín.
Áhrif: Græðandi, styrkjandi, krampalosandi og barkandi.
Notkun: Blákolla er einstaklega góð til að græða sár, bæði í meltingarvegi og á húð. Jurtin þykir góð gegn blæðingum í meltingarvegi og við niðurgangi. Blákolla hefur verið notuð með góðum árangri við minni háttar krömpum og flogaköstum.
Við kverkabólgu er gott að skola hálsinn úr tei af blöðunum.
Gott er að nota bakstra með jurtinni til að leggja við sár sem gróa seint.
Blákolla er mild jurt og má því nota hana jafnt fyrir börn sem fullorðna.
Kínversk fræði: Blákolla er kælandi og hefur sterkust áhrif á Gallblöðru og Lifur. Hún slær á Hita Lifrar og skýrir augun. Hún er notuð við augnhvarmabólgu og rauðum augum, sem og við augnverkjum sem versna með kvöldinu. Blákolla er einnig notuð við háum blóðþrýstingi, höfuðverkjum og svima sem orsakast af ójafnvægi í Lifrar-orku.
Blákolla losar Hita úr líkamanum og losar um hnúta (stíflur í orku og efni) og er þess vegna notuð við eitlabólgu.

Blóðarfi

Polygonum aviculare − súruætt

Nýttir plöntuhlutar: Öll jurtin, að rótinni undanskilinni.
Söfnun: Allt sumarið.
Virk efni: Kísilsýra, antrakínónar, barksýrur, sápungar og slímefni.
Áhrif: Barkandi, þvagdrífandi, stöðvar blæðingar, vinnur á steinum og sandi í þvagfærum.
Notkun: Blóðarfi er mest notaður við innvortis blæðingum, einkum í meltingarfærum, og hann er sérlega áhrifaríkur gegn niðurgangi. Blóðarfa má nota við steinum í þvagrás, en þá þarf að taka jurtina reglulega í langan tíma. Gott er að nota blóðarfa til að stilla blóðnasir og er þá mulin jurtin sogin upp í nasirnar.
Einnig má nota bakstra og smyrsl af blóðarfa á sár sem vessar úr.
Kínversk fræði: Blóðarfi er kælandi og hefur mest áhrif á Þvagblöðru. Hann er notaður við sýkingum og bólgu í þvagblöðru og þvagrás sem orsakast af Rökum Hita. Blóðarfi drífur sníkjudýr út úr líkamanum og stöðvar kláða. Hann er því notaður við sýkingum af völdum ýmissa sníkjudýra og orma sem valda kláða og ertingi í húð, svo og við ormum í meltingarvegi.

Blóðberg

Thymus praecox − varablómaætt

Nýttir plöntuhlutar: Öll jurtin í blóma, að rótinni undanskilinni.
Söfnun: Allt sumarið.
Virk efni: Ilmolíur, sem innihalda m.a. þýmól og karvakról, einnig barksýrur, sápungar, kvoðungar, flavonar og bitur efni.
Áhrif: Sýkladrepandi, losar um slím í öndunarfærum, linar krampa og eyðir vindverkjum.
Notkun: Blóðbergið er mest notað gegn flensu og kvefi, sérstaklega lungnakvefi og öðrum lungnasjúkdómum þar sem þarf að eyða sýklum og losa um slím.
Blóðberg er einnig mjög gott við ýmsum meltingarsjúkdómum, s.s. maga- og garnabólgu, og er talið vinna á helicobacter, bakteríu sem getur valdið magabólgu og sárum í maga. Blóðberg linar krampa í meltingarfærum og er þá gjarnan notað með öðrum jurtum.
Sterkt te af jurtinni, drukkið 4−6 sinnum á dag, 2−3 daga í senn, er talið gott til að venja fólk af áfengisdrykkju. Sennilegt er þó að þetta þurfi að endurtaka nokkrum sinnum með hvíld á milli. Þá er það og trú margra að blóðbergste dragi úr timburmönnum.
Einnig má nota blóðberg í skol gegn bólgu í munni og hálsi. Bakstrar með jurtinni þykja góðir við bólgum í liðum og vöðvum.
Kínversk fræði: Blóðberg er kælandi og slímlosandi og hefur styrkjandi áhrif á Lungu og Maga.

Blóðkollur

Sanguisorba officinalis − rósaætt

Nýttir plöntuhlutar: Öll jurtin, að rótinni undanskilinni.
Söfnun: Allt sumarið.
Virk efni: Barksýrur, ilmolíur, sykrungar, flavonar og C-vítamín.
Áhrif: Barkandi og græðandi.
Notkun: Blóðkollur er mest notaður við bólgu og særindum í maga og meltingarvegi. Jurtin þykir góð við gyllinæð og þrálátum niðurgangi.
Jurtin er góð í skol við særindum í munni og leggöngum.
Þá má leggja blóðkoll, á sama hátt og aðrar barkandi jurtir, við sár til að stöðva minni háttar blæðingar.
Við blóðnösum er þannig gott að sjúga þurrkaðan og malaðan blóðkoll upp í nefið.
Kínversk fræði: Kínverskir grasalæknar nota rótina af blóðkolli sem er súr og köld og hefur styrkjandi áhrif á Lifur, Ristil og Maga. Rótin kælir Blóðið og stöðvar blæðingar í Neðri-hitara (líkaminn fyrir neðan nafla) þar sem einkennin eru blóð í hægðum og/eða miklar tíðablæðingar.
Rótin er einnig notuð í duftformi til að auka vöxt á holdi og er lögð á sár sem gróa illa og brunasár, þar sem hún bæði kælir bólgu í húðinni og eykur vöxt nýrrar húðar.
Á rannsóknarstofum hefur rótin reynst hafa heftandi áhrif á ýmsar sjúkdómsvaldandi bakteríur, þar á meðal Staphylococcus aureus, Streptococcus og Pseudomonas aeruginosa.

Bóluþang

Fucus vesiculosus − þangætt

Nýttir plöntuhlutar: Öll plantan. Þangtöflur fást í öllum heilsubúðum og sumum apótekum.
Söfnun: Allt árið.
Virk efni: Slímefni, mannitól, fúkósterín, fúkósantín, sísantín, ilmolíur og mikið af steinefnum, t.d. joði.
Áhrif: Nærandi, blóðhreinsandi, örvar skjaldkirtil og þar með öll efnaskipti líkamans.
Notkun: Bóluþang er notað við vanvirkum skjaldkirtli. Það er einnig gott fyrir fólk sem þjáist af stöðugri þreytu og slappleika.
Þangbakstrar eru góðir á bólgna liði og vöðva.
Kínversk fræði: Bóluþang hefur styrkjandi áhrif á Hjarta. Það inniheldur sykrunga sem hafa áhrif á seratónín-framleiðslu og er því notað gegn þunglyndi og depurð.
Jurtin er ekki æskileg fyrir börn.

Brenninetla

Urtica dioeca − netluætt

Nýttir plöntuhlutar: Blöðin, sem eru eingöngu notuð þurrkuð.
Söfnun: Fyrri hluta sumars.
Virk efni: Beiskjuefni, sem innihalda m.a. maurasýru og edikssýru, einnig histamín, barksýrur, A- og C-vítamín og mikið af steinefnum, t.d. járni.
Áhrif: Barkandi, stöðvar blæðingar bæði innvortis og útvortis, nærandi, þvagdrífandi, örvar mjólkurmyndun og minnkar sykur í blóði.
Notkun: Brenninetla er mjög góð við húðútbrotum og exemi, einkum þykir hún góð við blöðruútbrotum sem klæjar mikið í.
Jurtin er mjög góð fyrir börn sem þjást af ofnæmisútbrotum.
Brenninetlan er nærandi og er þess vegna oft gefin fólki sem þjáist af blóðleysi og næringarskorti.
Brenninetlu má nota við öllum innvortis blæðingum og miklum tíðablæðingum.
Brenninetlan er notuð til að örva mjólkurmyndun í brjóstum og vegna áhrifa hennar á blóðsykur er jurtin góð við síðkominni sykursýki.
Kínversk fræði: Brenninetla kælir Blóðið og styrkir Lifrar Yin. Hún er þess vegna notuð við öllu ofnæmi, svo og sjálfsofnæmi. Hún róar Andann (Shen) og minnkar kláða og ertingu í líkamanum.
Varúð! Fersk netlublöð valda ertingu, bæði útvortis og innvortis.

Brennisóley

Ranunculus acris − sóleyjaætt

Nýttir plöntuhlutar: Fersk jurtin.
Söfnun: Fyrir blómgun.
Virk efni: Animónól (mjög ertandi efni fyrir húðina).
Áhrif: Ertandi, verkjastillandi, linar krampa og veldur roða á húð.
Notkun: Brennisóley er eitruð jurt og má því ekki nota hana innvortis.
Útvortis er hún notuð í bakstra til að leggja við gigt, sérstaklega þvagsýrugigt. Einnig hafa bakstrar af ferskri jurtinni þótt góðir við verkjum í baki, liðum og höfði.
Varúð! Leitið ávallt álits grasalæknis áður en brennisóley er notuð. Jurtin er mjög ertandi og kemur upp blöðrum á húðinni ef hún er látin liggja of lengi. Varast skal að láta bakstrana liggja lengur en svo að húðin taki rétt að roðna.

Brönugrös

Dactylorhiza maculata − brönugrasætt

Nýttir plöntuhlutar: Rótin.
Söfnun: Seinni hluta sumars og á haustin.
Virk efni: Kvoðungar og sykrur.
Áhrif/notkun: Rótin var talin auka frjósemi karla og kvenna og var talin koma í veg fyrir fósturmissi snemma á meðgöngutímanum. Einnig var hún talin styrkja legið og búa líkamann undir fæðinguna. Brönugrös þóttu mjög góð við hósta og hæsi.
Smyrsl gerð úr rótunum þykja góð við útbrotum og slæmum sárum.
Jurtin er ekki æskileg fyrir börn.

Burnirót

Rhodiola rosea − hnoðraætt

Nýttir plöntuhlutar: Jarðstöngull.
Söfnun: Seinni hluta sumars og haust.
Virk efni: Barksýrur, annars hafa virk efni í jurtinni lítið verið rannsökuð. Áhrif: Barkandi, græðandi, bólgueyðandi og einnig hreinsar hún sand úr nýrum.
Notkun: Burnirótin hefur mest verið notuð vegna barkandi eiginleika sinna. Hún þykir góð við bólgu og særindum í meltingarvegi. Einnig var hún notuð við niðurgangi og blóðsótt.
Þá þykir hún ágæt í skol gegn bólgu og særindum í munni og einnig við særindum og útferð í leggöngum. Eins þykir gott að leggja deigbakstur af muldum jarðstönglinum við sár og bólgu í húð.
Kínversk fræði: Burnirót styrkir Milta Qi.

E

Einir

Juniperus communis − grátviðarætt

Nýttir plöntuhlutar: Ber og ný blöð (barr).
Söfnun: Berin eru tínd á haustin á öðru og þriðja ári þegar þau eru orðin blá, en blöðin eru tekin á vorin.
Virk efni: Ilmolíur, sem innihalda m.a. pínín og kampín, bitur efni, þ. á m. júniperín, pódófyllótoxín (æxliseyðandi efni), flavonar, barksýrur og sykrur.
Áhrif: Þvagdrífandi, sýkladrepandi, sérstaklega í þvagfærum, linar gigt, bætir meltingu, eyðir vindverkjum og örvar samdrætti í legi.
Notkun: Ber og blöð hafa áþekka verkun, berin eru þó kraftmeiri. Þau eru mest notuð við sýkingu í þvagfærum, en eru einnig góð við alls konar gigt, einkum þó þvagsýrugigt.
Einiber hafa mikið verið notuð til að styrkja maga og bæta meltingu, ekki síst ef sýrumyndun er ónóg. Einnig má nota þau gegn krampa og vindverkjum í meltingarfærum.
Gott er að búa til einiberjaolíu til að bera á gigtveika vöðva og liði, einnig þykir olían góður áburður á bólgnar taugar og vöðva.
Kínversk fræði: Einiber og barr eru vermandi og styrkja Nýrna Qi og Lifur.
Varúð! Sum efni í einiberjum (og blöðum) geta ert nýrun, því ættu nýrnasjúkir ekki að nota eini. Ekki ætti að nota einiber lengur en 6 vikur í senn. Ófrískar konur ættu alls ekki að nota þessa plöntu. Jurtin er ekki æskileg fyrir börn.

F

Fjallafoxgras

Phleum alpinum − grasætt

Nýttir plöntuhlutar: Blöðin.
Söfnun: Fyrri hluta sumars.
Virk efni: Órannsakað.
Áhrif/notkun: Ef grasið er tekið áður en punturinn skríður þykir það gott til að losa slím úr öndunarfærum. Einnig er það þvag- og svitadrífandi og það eyðir vindverkjum. Jurtin hefur verið notuð gegn kvefi, sérstaklega berknakvefi, og hægðatregðu með ágætis árangri.
Þá er jurtin talin góð við kláða í húð, hvort sem hún er notuð innvortis eða útvortis.
Kínversk fræði: Fjallfoxgras er vermandi og leiðréttir Lifrar-orku.

Fjallagrös

Cetraria islandica − fjallagrasaætt

Nýttir plöntuhlutar: Öll plantan.
Söfnun: Fyrri hluta sumars, best þykir að tína fjallagrös þegar jörð er rök.
Virk efni: Slímefni, þ. á m. likenín, bitrar sýrur, steinefni, t.d. bæði járn- og kalíumsölt, og gerlaeyðandi efni.
Áhrif: Mýkjandi og græðandi fyrir meltingarveg og öndunarfæri, og einnig græðandi útvortis. Fjallagrös eru einnig mjög nærandi og því hin hollasta fæða.
Notkun: Fjallagrös eru eitt albesta lyfið við sárum og bólgu í meltingarfærum, þau minnka ertingu frá sýrum í maga og græða sára slímhúð. Fjallagrös hafa löngum þótt hafa góð áhrif á öndunarfæri, einkum ef fólk þjáist af þurrum hósta.
Þá er gott að leggja bakstra með fjallagrösum við sár og þurra exemhúð.
Kínversk fræði: Fjallagrös styrkja Maga og Lungna Yin. Þau eru kælandi og nærandi og eru notuð við bólgu og særindum í maga og öndunarvegi. Vegna slímefnanna má ekki nota fjallagrös þegar mikil slímmyndun er í líkamanum.

Fjalldalafífill

Geum rivale − rósaætt

Nýttir plöntuhlutar: Jurtin í blóma og jarðrenglur.
Söfnun: Seinni hluta sumars og haust.
Virk efni: Ilmolíur, þar á meðal ágenól, bitur efni, barksýrur, sykrungar og flavonar.
Áhrif: Herpandi, styrkjandi, örvar og styrkir lifur og bætir meltingu og losar slím úr lungum.
Notkun: Jarðrenglurnar eru bæði bragðgóðar og áhrifaríkar gegn niðurgangi. Fjalldalafífillinn allur er góður við lystarleysi og lélegri meltingu.
Fjalldalafífill er mjög styrkjandi fyrir fólk sem legið hefur lengi í veikindum og te af jurtinni er talið fyrirbyggjandi við farveiki. Te af jurtinni í blóma er einnig talið gott við þrálátu lungnakvefi og stíflum í ennisholum.
Kínversk fræði: Fjalldalafífill styrkir Milta og hjálpar því við vinnslu á orku úr mat og drykk. Einnig eyðir hann Raka og Slími úr líkamanum.

G

Garðabrúða

Valeriana officinalis − garðabrúðuætt

Nýttir plöntuhlutar: Jarðrenglur.
Söfnun: Á vorin eða haustin.
Virk efni: Ilmolíur, sem innihalda m.a. valeríansýru, borneól, pínen og kampen, einnig rokgjörn beiskjuefni, t.d. katínín, skytantín og kvoðungar. Í ferskri rót eru einnig sterk róandi efni.
Áhrif: Róandi, án þess að rýra starfsgetu, þvagdrífandi, losar slím úr öndunarfærum og linar krampa.
Notkun: Garðabrúða er mikið notuð við allri streitu, sérstaklega þykir hún góð við meltingarsjúkdómum af völdum streitu. Rótin er notuð við ákveðnum tegundum svefnleysis, einkum fersk, og einnig með öðrum jurtum til að vinna gegn háum blóðþrýstingi. Garðabrúðan róar flest líffæri og er góð við örum hjartslætti og annarri streitu í hjarta og vöðvum. Vegna róandi efna í ferskri rótinni er líklegt að hún hafi áhrif á starfsgetu og samhæfingu svo að óráðlegt er að aka bifreið eftir inntöku hennar.
Kínversk fræði: Garðabrúða hefur áhrif á Lifrar Qi og vinnur á orkustíflum í líkamanum. Hún ver Maga, Milta og Lungu gegn áhrifum streitu og er þess vegna góð viðbót í jurtablöndur við meltingar- og öndunarfærasjúkdómum sem rekja má til streitu.
Varúð! Garðabrúða tekin í of stórum skömmtum getur valdið öllum þeim einkennum sem hún á að hindra, t.d. örum hjartslætti, streitu og brjóstsviða. Notið hana ekki með öðrum svefnlyfjum, því að hún eykur virkni þeirra. Jurtin er ekki æskileg fyrir börn.

Garðahjálmgras

Galeopsis tetrahit − varablómaætt

Nýttir plöntuhlutar: Blöðin.
Söfnun: Á sumrin fyrir blómgun.
Virk efni: Slímefni, barksýrur, olíur og sápungar.
Áhrif: Barkandi, þvagdrífandi og slímlosandi úr öndunarfærum.
Notkun: Garðahjálmgras er einstaklega gott til að losa slím úr öndunarfærum og er mikið notað gegn slæmum hósta. Jurtin er talin góð við blóðleysi og fleiri kvillum í blóði. Garðahjálmgrasið hefur löngum verið notað til að styrkja miltað.
Kínversk fræði: Garðahjálmsgras styrkir Milta og hjálpar því við að vinna orku úr mat. Vegna áhrifa garðahjálmsgrass á Miltað er það notað við sykursýki og innvortis blæðingum.

Gleym-mér-ei

Myosotis arvensis − munablómsætt

Nýttir plöntuhlutar: Jurtin öll, að rótinni undanskilinni.
Söfnun: Allt sumarið.
Virk efni: Jurtin hefur lítið verið rannsökuð, þó er vitað að hún inniheldur bæði barksýrur og slímefni.
Áhrif: Barkandi, blóðhreinsandi, mýkjandi og græðandi.
Notkun: Gleym-mér-ei er talin hafa góð áhrif á lungun og var oft notuð við margs konar lungnasjúkdómum.
Einnig er jurtin notuð til að leggja við minni háttar sár og bruna.

Græðisúra

Plantago major − græðisúruætt

Nýttir plöntuhlutar: Blöðin.
Söfnun: Fyrri hluta sumars.
Virk efni: Sykrungar, þ. á m. ákúbín, einnig slímefni, sýrur, barksýrur, C-vítamín, kísilsambönd og ensímin emúlsín og invertín.
Áhrif: Barkandi, mýkjandi og þvagdrífandi, losar einnig slím úr öndunarfærum og stöðvar blæðingar.
Notkun: Græðisúra er mest notuð við sýkingu og bólgu í þvagfærum, sérstaklega er jurtin góð ef um er að ræða blóð í þvagi. Græðisúran er góð við skyrbjúg vegna vítamínauðgi hennar og hana má einnig nota við lungnakvefi og þurrum, kitlandi hósta.
Þá þykir græðisúra góð til að leggja við sár sem illa vilja gróa, eins og nafn hennar bendir til.
Einnig þykir gott að gefa stíla með jurtinni við gyllinæð.
Kínversk fræði: Græðisúrufræin eru sæt og köld og hafa styrkjandi áhrif á Þvagblöðru, Nýru, Lifur og Lungu. Þau eru þvagdrífandi og vinna gegn Hita og eru notuð við öllum tegundum af bjúg og þvagfærasýkingum. Fræin hreinsa augun og eru notuð við augnsjúkdómum sem orsakast af orkuskorti Lifrar eða Nýrna (eins og þurr augu og ský á auga) eða Hita Lifrar (eins og rauð, bólgin og sár augu). Fræin vinna einnig á Slími í Lungum og stöðva hósta og eru notuð gegn Hita og Raka í Lungum.

Gullkollur

Anthyllis vulneraria − grímublómaætt

Nýttir plöntuhlutar: Blómtopparnir.
Söfnun: Seinni hluta sumars.
Virk efni: Sápungar, barksýrur og slímefni.
Áhrif: Herpandi, græðandi, vægt hægðaleysandi og hóstastillandi.
Notkun: Gullkollur er mest notaður útvortis og er jurtin þá lögð við sár og minni háttar bruna. Te af jurtinni er gott að nota til að þvo sár.
Gullkollur er oft gefinn börnum sem þjást af hægðatregðu, og er þá gefið te af jurtinni. Ef hægðatregða er langvarandi skal leita álits læknis eða grasalæknis.
Gullkollur dregur oft úr ógleði og uppköstum og hefur reynst mörgum konum vel á fyrstu vikum meðgöngu.
Einnig gagnast hann vel gegn farveiki (sjó-, flug- og bílveiki).

Gulmaðra

Galium verum − möðruætt

Nýttir plöntuhlutar: Jurtin öll nýblómguð, að rótinni undanskilinni.
Söfnun: Miðsumars.
Virk efni: Kísilsýra, sykrungar, barksýrur, ilmolíur, jurtasýrur, ensímið rennín og C-vítamín.
Áhrif: Þvagdrífandi, blóðhreinsandi, græðandi og barkandi og linar krampa í þvagfærum.
Notkun: Gulmaðra er sérstaklega góð jurt við alls kyns húðsjúkdómum, s.s. exemi, sóríasis og graftarkýlum, en þá er gulmaðran oftast notuð með öðrum jurtum.
Gulmöðrute er talinn góður drykkur til að hreinsa blóðið eftir notkun sterkra lyfja, áfengis eða eftir óhóflega kaffineyslu. Gulmöðru má einnig nota við sjúkleika í nýrum og blöðru.
Kínversk fræði: Gulmaðra er vermandi og eyðir Raka og Slími. Hún hefur styrkjandi áhrif á Lifur og Nýrna Qi.

 

H

Hárdepla

Veronica officinalis − grímublómaætt

Nýttir plöntuhlutar: Þurrkuð jurtin í blóma, að rótinni undanskilinni.
Söfnun: Seinni hluta sumars.
Virk efni: Barksýrur, sykrungurinn ákúbín, ilmolíur, sápungar og bitur efni.
Áhrif: Svita- og þvagdrífandi, losar slím úr öndunarfærum og er græðandi útvortis.
Notkun: Hárdeplan er minna notuð til lækninga nú en fyrrum, enda hefur jurtin mjög væga verkun.
Áður fyrr var hún notuð gegn mörgum kvillum, s.s. skyrbjúg, lystarleysi, megrunarsótt, nýrnasteinum, útbrotum og kláða í húð og jafnvel til að ná skýi af auga.
Þá þótti þessi jurt mýkja þurran hósta, hreinsa blóð og með bökstrum mátti græða útvortis sár.

Haugarfi

Stellaria media − hjartagrasætt

Nýttir plöntuhlutar: Öll jurtin í blóma.
Söfnun: Allt sumarið.
Virk efni: Slímefni, sápungar, sumir bólgueyðandi, og ýmis næringarsölt. Áhrif: Mýkjandi, græðandi, kælandi og barkandi. Jarðlægur stöngullinn er talinn örva og styrkja lifur og milta.
Notkun: Haugarfi er mest notaður í húðsmyrsl gegn alls kyns bólgum, sárum og exemi. Jurtin er sérstaklega góð við kláða. Innvortis er haugarfi notaður við alls kyns gigt. Þá þótti arfate örva matarlyst og mýkja hægðir. Jarðlæga stönglana má nota við sjúkdómum sem stafa af truflunum í lifur og við gallsteinum.
Kínversk fræði: Kínverjar nota rótina af haugarfa sem er sæt og köld og hefur styrkjandi áhrif á Maga og Lifur. Rótin eyðir Hita sem myndast vegna skorts á Yin-orku.

Helluhnoðri

Sedum acre − hnoðraætt

Nýttir plöntuhlutar: Fersk, óblómstruð jurtin, að rótinni undanskilinni.
Söfnun: Fyrri hluta sumars.
Virk efni: Beiskjuefni, þ. á m. semadín, einnig sykrungar og slímefni.
Áhrif: Ertir húð og veldur þar roða og jafnvel blöðrum.
Notkun: Helluhnoðri er eingöngu notaður útvortis. Jurtin getur valdið óæskilegum aukaverkunum ef hún er tekin inn, t.d. uppsölum eða niðurgangi.
Helluhnoðri þykir mjög góður gegn vörtum og líkþornum og er þá áburður af honum borinn á þrisvar til fjórum sinnum á dag. Einnig er gott að nota jurtina á sár sem gróa treglega og til að örva blóðrás í húðinni.
Best er að nota veikt te eða áburð af jurtinni á sár.

Hjartarfi

Capsella bursa-pastoris − krossblómaætt

Nýttir plöntuhlutar: Jurtin öll, nema rótin.
Söfnun: Allt sumarið.
Virk efni: Kólín, asetýlkólín, týramín, amínósýrur, sykrur, flavonar, ýmis steinefni og vítamín, einkum þó A-, B- og C-vítamín.
Áhrif: Stöðvar blæðingar bæði innvortis og útvortis, er æðaherpandi, þvagdrífandi og styrkir og sótthreinsar slímhúð þvagfæra.
Notkun: Te og urtaveig af hjartarfa hafa mikið verið notuð og með mjög góðum árangri við miklum tíðablæðingum. Ef jurtin er tekin í nokkurn tíma getur hún stöðvað milliblæðingar á tíðahringnum. Einnig var hún notuð til að stöðva of miklar blæðingar eftir fæðingu. Þegar hjartarfinn er notaður til að draga úr tíðablæðingum sem eiga sér stað á réttum tíma í tíðahring þarf að taka hann frá miðjum tíðahring og þar til blæðingarnar stöðvast. Þetta er endurtekið í næsta tíðahring. Hjartarfinn þykir góður við ýmiss konar sýkingu í þvagfærum, einkum ef um er að ræða mikla slímútferð eða blæðingu úr þvagrás.
Duft búið til úr jurtinni er gott til að stöðva blóðnasir, svo og minni háttar blæðingu úr sárum á húð.
Kínversk fræði: Haugarfi styrkir Milta og Leg og eyðir Raka og Slími, sérstaklega í grindarbotni.

Hóffífill

Tussilago farfara − körfublómaætt

Nýttir plöntuhlutar: Blöð, blómknappar og nýútsprungin blóm.
Söfnun: Fyrri hluta sumars.
Virk efni: Slímefni (einkum í blómum), barksýrur (einkum í blöðum), bitrir sykrungar, sink, inúlín og hormónalík efni.
Áhrif: Róandi og mýkjandi, losar slím úr öndunarfærum. Útvortis er hóffífillinn græðandi og mýkjandi.
Notkun: Hóffífill er mikið notaður við alls kyns hósta, eins og ættkvíslarheitið Tussilago bendir til (tussis = hósti). Hóffífillinn er einkar góður við þurrum, heitum hósta, krampakenndum hóstaköstum og asma.
Hóffífillinn hefur alltaf þótt sérstaklega góður fyrir börn.
Útvortis má nota hóffífilinn í bakstra á bólgur og sár.
Kínversk fræði: Hóffífilsblómin eru beisk og vermandi og hafa styrkjandi áhrif á Lungun. Þau leiða Qi niður á við og stöðva hósta. Vegna vermandi eiginleika þeirra eru þau sérstaklega áhrifarík við hósta sem stafar af Kulda og Raka.

Hófsóley

Caltha palustris − sóleyjaætt

Nýttir plöntuhlutar: Þurrkuð blöð og blóm.
Söfnun: Fyrri hluta sumars.
Virk efni: Prótóanemónín, flavonar, karótín, barksýrur og sápungar.
Áhrif: Verkjastillandi, svitadrífandi, linar krampa, losar slím úr öndunarfærum og ertir hörund.
Notkun: Hófsóley hefur lengi verið notuð til þess að eyða vörtum og var þá ferskum blómunum nuddað á vörturnar.
Einnig voru fersk blöð lögð við sár til þess að hreinsa þau og græða.
Hófsóleyjarte hefur löngum þótt gott krampalyf, bæði fyrir börn og fullorðna. Þá má nota hófsóley gegn slæmum tíðaverkjum.
Kínversk fræði: Hófsóley leiðréttir Lifrar-orku og róar.
Varúð! Hófsóley virkar mjög ertandi þegar hún er fersk og getur valdið eitrun. Þess vegna skal ávallt þurrka hana vel eða sjóða hana áður en lyf eru gerð úr henni. Við þurrkun og suðu eyðileggjast þau efni sem valda ertingunni (prótóanemónín).

Holtasóley

Dryas octopetala − rósaætt

Nýttir plöntuhlutar: Öll jurtin, að rótinni undanskilinni.
Söfnun: Fyrri hluta sumars.
Virk efni: Barksýrur, kísilsýra og ýmis steinefni.
Áhrif: Barkandi, styrkjandi og lítið eitt örvandi fyrir meltinguna.
Notkun: Holtasóley má nota við sárum í maga og öðrum hlutum meltingarvegar, einkum þó ef um er að ræða blæðingar. Einnig er jurtin góð til að stilla hægðir og óhóflega slímmyndun í meltingarfærum. Holtasóley er einnig talin styrkja veilt hjarta.
Holtasóley er góð í skol við bólgum og sárum í tannholdi, munni og hálsi. Te af holtasóley er gott í skol gegn útferð og særindum í leggöngum.
Kínversk fræði: Holtasóley styrkir Milta Qi.

Horblaðka

Menyanthes trifoliata − horblöðkuætt

Nýttir plöntuhlutar: Blöðin.
Söfnun: Fyrri hluta sumars.
Virk efni: Bitrir sykrungar, þ. á m. lóganín og fólíamentín, einnig flavonar, sápungar, ilmolíur, inúlín, kólín, C-vítamín og joð.
Áhrif: Örvar meltingu og hægðir, er bólgueyðandi, þvagdrífandi og hitastillandi.
Notkun: Horblaðka er mjög góð við alls kyns gigt, s.s. vöðvagigt, liðagigt og taugagigt. Einnig má nota horblöðku við annarri langvarandi bólgu í líkamanum, þó ekki við magabólgu. Jurtin örvar meltingu og fyrrum þótti hún góð við skyrbjúg.
Útvortis er gott að leggja heita bakstra með blöðum við bólgna liði og vöðva.
Kínversk fræði: Horblaðka er mjög þurrkandi og hefur styrkjandi áhrif á Nýru og Lungu. Hún er notuð við gigt þar sem Raki er samfara gigtinni og við Slími í lungum. Hana ber að forðast ef Þurrkur er til staðar í líkamanum.

Hrafnaklukka

Cardamine nymanii − krossblómaætt

Nýttir plöntuhlutar: Jurtin öll, að rótinni undanskilinni.
Söfnun: Fyrri hluta sumars.
Virk efni: Jurtin hefur lítið verið rannsökuð, þó er vitað að í henni eru bæði sykrungar og bitur efni.
Áhrif: Blóðhreinsandi, örvar tíðir kvenna, drepur iðraorma, örvar meltingu og starfsemi lifrar og styrkir lungu.
Notkun: Hrafnaklukkan hefur mest verið notuð til þess að örva tíðablæðingar. Jurtin er mjög bitur og er þess vegna góð til að örva matarlyst ef hennar er neytt hálfri klukkustund fyrir máltíð.
Hrafnaklukkute er mjög styrkjandi fyrir máttfarið fólk sem hefur átt lengi í veikindum.
Kínversk fræði: Hrafnaklukka styrkir Lifur og Milta.
Varúð! Þungaðar konur ættu alls ekki að nota hrafnaklukku, hún getur valdið fósturmissi, sérstaklega á fyrstu mánuðum meðgöngu. Hið sama gildir um flestar aðrar bitrar jurtir. Jurtin er ekki æskileg fyrir börn.

Hrútaberjalyng

Rubus saxatilis − rósaætt

Nýttir plöntuhlutar: Rót, blöð og ber.
Söfnun: Allt sumarið.
Virk efni: Barksýrur, sykrur, sýrur og C-vítamín.
Áhrif: Barkandi, blóðhreinsandi, styrkjandi og græðandi.
Notkun: Hrútaberjalyng er notað við særindum og bólgu í meltingarfærum og einnig við niðurgangi og slími í hægðum. Berin má þurrka og mylja í duft og hafa í te sem þykir mjög gott við lausum hægðum barna. Allir hlutar jurtarinnar þykja styrkjandi og henta vel fyrir fólk eftir löng veikindi og uppskurði.
Hrútaberjalyng má nota í skol við særindum og bólgu í munni og leggöngum.
Kínversk fræði: Hrútberjalyng styrkir Milta og Maga.

Húsapuntur

Elymus repens − grasætt

Nýttir plöntuhlutar: Jarðstöngull og jarðrenglur.
Söfnun: Vor og haust.
Virk efni: Mannitól, kísilsambönd, slímefni, náttúrugúmmí, vanillín, sápungar, agrópýren, sem er sýkladrepandi efni, járn og fleiri steinefni.
Áhrif: Græðandi, mýkjandi og sýkladrepandi í þvagfærum. Þvagdrífandi og deyfir verki og krampa í þvagrás.
Notkun: Húsapuntur er mikið notaður gegn kvillum í þvagfærum, t.d. við blöðrubólgu, blöðruhálskirtilsbólgu, nýrnabólgu og við óþægindum sem verða af nýrnasteinum og steinsótt í nýrum. Jurtin er skjótvirk en þó skaðlaus með öllu, einnig börnum.
Kínversk fræði: Húsapuntur er kælandi og styrkir Nýrna Yin og eyðir Hita úr Þvagblöðru.

 

I

Ilmreyr

Anthoxanthum odoratum − grasætt

Nýttir plöntuhlutar: Blómin.
Söfnun: Fyrri hluta sumars.
Virk efni: Ilmolíur og kúmarín.
Áhrif: Ilmreyr veldur frjónæmi (frjókornaofnæmi), en talið er að blómin geti dregið úr viðbrögðum ónæmiskerfisins.
Notkun: Mikilvægi ilmreyrs sem lækningajurtar felst fyrst og fremst í áhrifum hans gegn frjónæmi. Urtaveig er búin til, en vikið er frá hefðbundinni tilreiðslu. Hún er gerð úr sætu hvítvíni sem er styrkt með brenndu víni svo að styrkleiki verði 25%. Hlutföllin eru 1:5, líkt og venjulega. Þegar frjónæmikast hefst skal lykta vel af urtaveiginni, taka 3−5 dropa á tunguna og renna þeim niður. Þetta skal endurtekið á 30−60 mínútna fresti meðan frjónæmis verður vart.

 

J

Jakobsfífill

Erigeron borealis − körfublómaætt

Nýttir plöntuhlutar: Jurtin öll, að rótinni undanskilinni.
Söfnun: Fyrri hluta sumars.
Virk efni: Ilmolíur, rútín, beiskjuefni, slímefni og ýmis steinefni.
Áhrif: Barkandi, slímlosandi, örvar tíðir, er mýkjandi fyrir húð og örvar hægðir.
Notkun: Jakobsfífill getur verið hættulegur ef hann er notaður innvortis. Hann var mikið notaður á þann hátt hér áður fyrr, en nú er orðið ljóst að langvarandi notkun getur valdið eitrun í lifur, sem getur jafnvel leitt til dauða.
Útvortis er jakobsfífill mjög góð jurt við bruna, bólgu og sárum húðkrabbameina. Einnig er gott að leggja bakstra með jurtinni við gigtarbólgu og sára vöðva.
Jakobsfífill er góður í skol við sárum og bólgu í munni, hálsi og legi.
Varúð! Inntaka jakobsfífils er varhugaverð vegna eituráhrifa á lifur.
Jurtin er ekki æskileg fyrir börn.

Jarðarber

Fragaria vesca − rósaætt

Nýttir plöntuhlutar: Ber, blöð og rætur.
Virk efni: Barksýrur, slímefni, sölt, t.d. kalíum, C-vítamín, flavonar og ilmolíur.
Áhrif: Barkandi, þvagdrífandi, styrkjandi og blóðhreinsandi.
Notkun: Allir hlutar plöntunnar eru taldir góðir við slæmum húðsjúkdómum, sérstaklega ef um er að ræða eitrun í húð. Þá má nota jurtina í bakstra eða til inntöku.
Blöðin og rótin eru góð við kvillum í þörmum, t.d. niðurgangi, þarmabólgu og krampa. Einnig eru þau góð við sjúkdómum í þvagfærum, s.s. blöðrubólgu, nýrnasandi og blæðingum.
Kínversk fræði: Jarðarberjajurtin og berin eru kælandi og eyða Hita og Hita-eitrun. Jurtin styrkir Lifur og hreinsar Blóðið.

 

K

Kattartunga

Plantago maritima – græðisúruætt

Nýttir plöntuhlutar: Blöð og rót.
Söfnun: Fyrri hluta sumars, áður en plantan blómgast.
Virk efni: Barksýrur, slímefni, kísilsýra, ákúbín og C-vítamín.
Áhrif: Jurtin er talin styrkjandi, græðandi, barkandi, mýkjandi og ormeyðandi.
Notkun: Kattartunga var notuð við lystarleysi, bólgu og særindum í meltingarvegi og við niðurgangi.
Einnig var jurtin notuð á svipaðan hátt og selgresi, við kvefi og bólgum í ennisholum.

Klóelfting

Equisetum arvense − elftingarætt

Nýttir plöntuhlutar: Öll jurtin, að rótinni undanskilinni. Efstu hlutar gróbæru stönglanna (skollafótanna) þykja bestir.
Söfnun: Á vorin.
Virk efni: Kísilsambönd, sápungar, beiskjuefni, bitur efni, flavonar, C-vítamín og mikið af steinefnum, einkum kalíum.
Áhrif: Barkandi, stöðvar blæðingar, þvagdrífandi, styrkjandi og græðandi fyrir lungu og nýru, fjarlægir ýmis eiturefni úr líkamanum og styrkir ónæmiskerfið.
Notkun: Klóelfting er mjög góð gegn flestum sjúkdómum sem herja á nýrun og aðra hluta þvagfæra. Jurtin kælir og styrkir þvagfæri, t.d. eftir inntöku sterkra lyfja, s.s. fúkkalyfja og krabbameinslyfja, hún dregur úr bjúgi og myndun óhóflegs næturþvags.
Klóelfting er græðandi fyrir lungu, einkum eftir langvarandi lungnakvef og eins eftir berkla. Klóelfting örvar blóðstorknun og hefur því mikið verið notuð gegn blæðingum, jafnt innvortis sem útvortis.
Gott er að leggja bakstra á ljót sár, t.d. þau sem mikið blæðir úr.
Þessi jurt hefur mikið verið rannsökuð í löndum fyrrum Sovétríkjanna og þar er því haldið fram að hún hreinsi blý úr líkamanum.
Fyrir konur: Klóelfting styrkir öll líffæri í grindarholi. Jurtin hefur verið notuð við legslímuflakki með góðum árangri, og þykir einnig góð við langvarandi bólgu í legi og eggjastokkum.
Kínversk fræði: Klóelfting, eins og flestar aðrar elftingar, er sæt, beisk og hlutlaus og hefur áhrif á Nýru og Lifur. Hún eyðir Vind-Hita og stöðvar blæðingar. Jurtin er sérstaklega góð við Vind-Hita sem plagar augun og veldur þar roða, særindum, bólgu, þokusýn og of miklum tárum.
Vallelfting (Equisetum pratense) er talin hafa líka verkun og klóelftingin. Margir eiga í erfiðleikum með að greina þessar tegundir í sundur.

Kornsúra

Bistorta vivipara − súruætt

Nýttir plöntuhlutar: Rótin.
Söfnun: Fyrri hluta sumars.
Virk efni: Barksýrur, mjölvi og galleplasýra.
Áhrif: Sterkt barkandi og mýkjandi.
Notkun: Rótin er notuð við öllum særindum og blæðingum í meltingarvegi, t.d. við maga- og þarmabólgu og við niðurgangi.
Þá er rótin góð í skol við tannholdsbólgu og öðrum særindum í munni og hálsi, og einnig við særindum í leggöngum og leghálsi. Gott er að nota seyði af rótinni á sár sem hafast illa við.

Krossfífill

Senecio vulgaris − körfublómaætt

Nýttir plöntuhlutar: Öll jurtin, að rótinni undanskilinni.
Söfnun: Allt sumarið.
Virk efni: Beiskjuefnin senekín og seníókín, inúlín, kvoðungar og kalíum. Áhrif: Svitadrífandi, hægðaleysandi, þvagdrífandi, kælandi og verkjaeyðandi.
Notkun: Dauft te af krossfífli verkar vægt hægðaleysandi og var notað áður fyrr til að hreinsa orma úr meltingarfærum barna. Jurtin verkar kælandi á meltingarveginn og þykir þar góð við gallveiki og krampaverkjum.
Gott er að leggja bakstra með krossfífli á bólgna og auma líkamshluta, t.d. auma liði. Þá er jurtin græðandi fyrir sár á húð.
Varúð! Beiskjuefnin í krossfífli geta valdið fósturmissi og þungaðar konur ættu alls ekki að nota jurtina.
Jurtin er ekki æskileg fyrir börn.

Krækilyng

Empetrum nigrum − krækilyngsætt

Nýttir plöntuhlutar: Berin.
Söfnun: Haustin.
Virk efni: Berin hafa lítið verið rannsökuð efnafræðilega, en þó er vitað að í þeim eru bæði barksýrur og vítamín.
Áhrif/notkun: Saft af berjunum er mjög barkandi og er því góð við særindum og blæðingum í meltingarvegi. Hún er einnig góð til að stilla hægðir, sérstaklega hjá börnum. Berin eru auðug að vítamínum og eru því nærandi, séu þau etin í hófi.
Of mikið berjaát getur virkað of samandragandi og leitt til hægðatregðu og lystarleysis.

Kúmen

Carum carvi − sveipjurtaætt

Nýttir plöntuhlutar: Fræið. Kúmenfræ fæst í öllum matvöruverslunum.
Söfnun: Seinni hluta sumars.
Virk efni: Ilmolíur, sem innihalda m.a. karvón og límónín, einnig barksýrur, fita og prótín.
Áhrif: Losar slím úr öndunarfærum, linar krampa, verk- og vindeyðandi, vægt tíðaörvandi, örvar mjólkurmyndun.
Notkun: Kúmenið er mjög gott við miklum vindgangi og verkjum í meltingarvegi. Það örvar matarlyst og er þess vegna gott að setja það í mat handa börnum og fullorðnum sem þjást af langvarandi lystarleysi. Kúmenið þykir gott gegn alls kyns kvefi og hósta og tilraunir hafa sýnt fram á að kúmen vinni gegn Helicobacter pylori.
Þá örvar það brjóstamjólkurmyndun og þar sem rokgjörnu olíurnar skila sér út í mjólkina nýtur barnið áhrifa þeirra.
Kínversk fræði: Kúmenfræ leiðrétta Lifrar Qi og styrkja Maga.

Köldugras

Polypodium vulgare − köldugrasætt

Nýttir plöntuhlutar: Jarðstöngullinn.
Söfnun: Að vori og hausti.
Virk efni: Mannítól, ilmolíur, sykrur, glýkýrrísín, barksýrur og sápungar, þ. á m. fjölpódín.
Áhrif: Styrkjandi, örvar gallmyndun og aðra lifrarstarfsemi, er hægðalosandi og losar slím úr öndunarfærum.
Notkun: Köldugras er mest notað sem vægt hægðalyf.
Jarðstöngullinn verkar vel á þráláta húðsjúkdóma og þykir góður við sveppasýkingu, bæði í húð og meltingarfærum.
Hann er einnig góður til að losa þrálátt slím úr öndunarveginum og er oft notaður við hæsi og þurrum hósta.
Kínversk fræði: Köldugras er vermandi og þurrkandi og styrkir Lifur og Gallblöðru.

 

L

Laugadepla

Veronica anagallis-aquatica − grímublómaætt

Nýttir plöntuhlutar: Fersk eða þurrkuð jurtin í blóma, að rótinni undanskilinni.
Söfnun: Seinni hluta sumars.
Virk efni: Jurtin hefur lítið verið rannsökuð, en þó er vitað að í henni eru bæði barksýrur og sykrungar.
Áhrif: Örvandi, þvagdrífandi, mýkir hósta, linar krampa og stillir hita.
Notkun: Laugadeplan er lítið notuð nú, en fyrrum var hún notuð til að örva starfsemi lifrar, t.d. til að lækna gulu.
Þá þótti jurtin góð við gyllinæð, magabólgu, krömpum og fleiri sjúkdómum í meltingarfærum.
Einnig þótti hún góð við flogaveiki.
Útvortis er laugadeplan græðandi og bólgueyðandi.

Litunarjafni

Diphazium alpinum − jafnaætt

Nýttir plöntuhlutar: Gróin.
Söfnun: Seinni hluta sumars.
Virk efni: Olíur sem innihalda m.a. palmitínglýseról, sterín, arakítínefni og nornamjölsolíu, einnig lykópódsýra og pollenín. Jurtin öll inniheldur þar að auki beiskjuefni, meðal þeirra klavatoxín og klavatín.
Áhrif: Græðandi, stöðvar blæðingar og er laxerandi og vægt krampalosandi.
Notkun: Gróin voru notuð við bólgu í nýrum, þvagblöðru og lifur. Einnig þóttu þau góð við þvagleka.
Í dag eru jafnagróin nær eingöngu notuð útvortis, til að græða slæm sár og húðsjúkdóma, einkum exem og sóríasis.
Varúð! Jurtin sjálf er töluvert eitruð, þó að gróin séu það ekki. Einungis má nota gróin útvortis og þá í litlum skömmtum.
Jurtin er ekki æskileg fyrir börn.

Ljónslappi

Alchemilla alpina − rósaætt

Nýttir plöntuhlutar: Blöðin rétt fyrir blómgun.
Söfnun: Fyrri hluta sumars.
Virk efni: Barksýrur og óþekkt bólgueyðandi efni.
Áhrif: Græðandi, bólgueyðandi, barkandi og herpandi útvortis sem innvortis, styrkir alla líkamsvefi.
Notkun: Ljónslappi var mikið notaður áður fyrr við niðurgangi og við særindum og blæðingum í meltingarvegi.
Útvortis er ljónslappi notaður til að stöðva blæðingar og vessastreymi úr sárum, svo og til að græða minni háttar sár. Þá má nota jafnt duft sem bakstra.
Nota má jurtina í skol og við særindum og bólgu í munni og leggöngum.
Kínversk fræði: Ljónslappi er styrkjandi fyrir Milta.

Lófótur

Hippuris vulgaris − lófótsætt

Nýttir plöntuhlutar: Jurtin öll, að rótinni undanskilinni.
Söfnun: Allt sumarið.
Virk efni: Jurtin hefur lítið verið rannsökuð, en þó er vitað að hún inniheldur sápunga, kísilsambönd og bitur efni.
Áhrif: Stöðvar blæðingar bæði innvortis og útvortis, styrkir lungu og nýru og er talinn vinna á nýrnasteinum.
Notkun: Lófótur er mjög áhrifamikill til að stöðva blæðingar og hefur mest verið notaður í þeim tilgangi. Hann þykir sérstaklega góður gegn blæðingum í lungum, meltingarvegi og nýrum.
Útvortis er jurtin lögð við sár sem illa vilja gróa og einnig til að stöðva blóðnasir og er þá duft af plöntunni sogið upp í nefið.
Kínversk fræði: Lófótur styrkir Miltað og þá sérstaklega þá starfsemi þess sem heldur Blóðinu í æðunum.

Lokasjóður

Rhinanthus minor − grímublómaætt

Nýttir plöntuhlutar: Öll jurtin, að rótinni undanskilinni.
Söfnun: Fyrri hluta sumars.
Virk efni: Barksýrur og sykrungar.
Áhrif: Losar slím úr öndunarfærum, er mýkjandi og barkandi.
Notkun: Lokasjóður er talinn góður við þurrum hósta og jafnvel asma.
Jurtin hefur samt mest verið notuð í augnskol við alls kyns augnsjúkdómum, s.s. hvarmabólgu, viðkvæmum augum og til að hreinsa slikju af augum.

Lyfjagras

Pinquicula vulgaris − blöðrujurtaætt

Nýttir plöntuhlutar: Blöðin.
Söfnun: Fyrri hluta sumars.
Virk efni: Barksýrur, bensól- og valeríansýrur, ensím sem hleypa mjólk og slímefni.
Áhrif: Losar slím úr öndunarfærum og stillir þau samtímis, linar krampa og greiðir hægðir, er græðandi og mýkjandi útvortis.
Notkun: Lyfjagras var fyrrum mikið notað við kíghósta, með góðum árangri. Einnig má nota jurtina við þurrum, kitlandi hósta og þrálátum hóstaköstum.
Gott er að leggja blöðin við slæm sár, bólgur og sprungur í húð, og þau hafa verið notuð til þess að drepa lýs í hársverði.

 

M

Maríustakkur

Alchemilla vulgaris − rósaætt

Nýttir plöntuhlutar: Blöðin.
Söfnun: Fyrri hluta sumars.
Virk efni: Barksýrur, salisýlsýra, fýtósteról, sápungar, almítín og sterínsýra.
Áhrif: Barkandi, græðandi og styrkjandi, stöðvar blæðingar jafnt innvortis sem útvortis, kemur reglu á tíðablæðingar og styrkir leg og meltingarfæri.
Notkun: Maríustakkur er fyrst og fremst jurt fyrir konur. Hún stillir tíðaverki og of miklar blæðingar og er einnig notuð til að stöðva milliblæðingar. Vegna stemmandi áhrifa maríustakks á blæðingar er hann notaður með öðrum jurtum til að græða sár í maga og meltingarvegi.
Jurtin þykir gefast vel til að koma í veg fyrir fósturmissi, en þá verður að drekka reglulega maríustakkste fyrstu vikur meðgöngunnar.
Maríustakkur er notaður í skol gegn útferð og særindum í leggöngum.
Kínversk fræði: Maríustakkur styrkir Milta og Leg og er notaður við óeðlilega miklum tíðablæðingum og einnig til að minnka blöðrur og hnúta við leg og eggjastokka.

Maríuvöndur

Gentianella campestris − maríuvandarætt

Nýttir plöntuhlutar
: Rótin.
Söfnun: Að vori og að hausti.
Virk efni: Bitrir sykrungar og flavonar.
Áhrif: Styrkjandi, örvar meltingu með því að auka framleiðslu meltingarvökva, m.a. magasýru, og örvar tíðir.
Notkun: Eins og aðrar bitrar jurtir er maríuvöndur góður fyrir fólk sem þjáist af lystarleysi og öðrum einkennum sem stafa af meltingartregðu og veikleika lifrar.
Maríuvöndur styrkir fólk þegar það hefur átt lengi í veikindum og bati lætur á sér standa.
Maríuvöndur og aðrar bitrar jurtir eru notaðar sem hluti meðferðar við gallsteinum.
Kínversk fræði: Maríuvöndur er beisk, köld og súr jurt og hefur áhrif á Gallblöðru, Lifur og Maga. Rótin eyðir Vind-Raka og slakar á sinum, þannig er hún notuð við krampa í útlimum sem orsakast af Raka eða Vindi. Hún er notuð við gulu, sérstaklega í ungbörnum, og vegna áhrifa hennar á meltingu er hún notuð til að losa um hægðastíflur.

Melasól

Papaver radicatum − draumsóleyjaætt

Nýttir plöntuhlutar: Blómin.
Söfnun: Seinni hluta sumars.
Virk efni: Jurtabasar, barksýrur og kvoðungar.
Áhrif/notkun: Melasól er verkjastillandi, róandi og barkandi.
Blómin voru notuð við alls kyns verkjum og einnig þóttu þau góð við innvortis blæðingum, einkum í meltingarvegi.
Þá þóttu blómin góð fyrir fólk sem þjáðist af svefnleysi.
Kínversk fræði: Melasól er súr, barkandi og hlutlaus. Hún hefur áhrif á Nýru, Þarma og Lungu.
Jurtin er ekki æskileg fyrir börn.
Í melasól eru talin vera svæfandi og deyfandi efni, enda er svefngras gamalt heiti á jurtinni.

Mjaðurt

Filipendula ulmaria − rósaætt

Nýttir plöntuhlutar: Blöð og blóm.
Söfnun: Fyrri hluta sumars.
Virk efni: Barksýrur, ilmolíur, sem innihalda m.a. salisýlaldehýð og salisýl, einnig sykrungar, þ. á m. spíraín, salisín og gólterín, og enn fremur slímefni og flavonsykrungurinn spírakósíð.
Áhrif: Mýkjandi og græðandi fyrir slímhúð magans, dregur úr sýrumyndun í maga, er bólgueyðandi, þvagdrífandi, barkandi og hitastillandi.
Notkun: Mjaðurtin hefur bæði verið kölluð vinur magans og magnýl grasalækna. Jurtin er einstaklega góð gegn sárum og bólgu í maga, einnig dregur hún úr miklum magasýrum. Vegna salisýlsykrunganna er mjaðurtin góð við alls kyns gigt og bólgu í liðum, vöðvum og taugum.
Mjaðurt er barkandi og virkar þannig stemmandi á hægðir og blæðingar í meltingarvegi. Hún er notuð við þrálátum niðurgangi, blæðingum úr meltingarvegi og við gyllinæð.
Mjaðurtin er afar mild jurt og hefur mikið verið notuð handa börnum, bæði til að slá á hita og eins við niðurgangi og bólgu í slímhúð meltingarfæra.
Kínversk fræði: Mjaðurtin er kælandi og barkandi og styrkir Milta, Maga, Smáþarma og Ristil. Hún eyðir Hita úr meltingarvegi og liðum.

Mýrasóley

Parnassia palustris − mýrasóleyjarætt

Nýttir plöntuhlutar: Jurtin öll, að rótinni undanskilinni.
Söfnun: Fyrri hluta sumars.
Virk efni: Barksýrur, kvoðungar, slímefni og ýmis steinefni.
Áhrif: Barkandi, styrkjandi, græðandi og mýkjandi.
Notkun: Mýrasóley er talin styrkja lifrina sérstaklega, hún er því mikið notuð við langvarandi bólgu í lifur og meltingarvegi, gyllinæð og þrálátum niðurgangi. Jurtin hefur einnig verið notuð við þunglyndi, eins og svo margar aðrar jurtir sem styrkja lifrina. Þá er talið að mýrasóley hafi róandi og styrkjandi áhrif á hjartað og hefur hún þess vegna verið notuð við óreglulegum hjartslætti.
Mýrasóley er græðandi og því notuð til að leggja við sár sem illa gróa, t.d. brunasár.
Kínversk fræði: Mýrasóley er vermandi og barkandi og styrkir og leiðréttir Lifrar Qi og Hjarta.

 

N

Njóli

Rumex longifolius − súruætt

Nýttir plöntuhlutar: Rót, blöð og fræ.
Söfnun: Allt sumarið.
Virk efni: Oxalsýra og fleiri lífrænar sýrur, t.d. barksýrur, einnig sykrur og vítamín.
Áhrif: Þvagdrífandi, hægðalosandi, barkandi og blóðhreinsandi.
Notkun: Jurtin öll, þó sérstaklega rótin, þykir mjög góð við alls kyns húðsjúkdómum, einkum ef mikill kláði fylgir. Þá er jurtin notuð bæði innvortis og útvortis.
Öll jurtin er góð við brunasárum, illa gróandi sárum og bólgu og ígerð í húð.
Njólinn hefur að öðru leyti svipaða verkun og túnsúra.
Varúð! Vegna mikils sýruinnihalds njólans ætti fólk sem þjáist af gigt og of miklum magasýrum ekki að nota jurtina innvortis.

 

R

Rauðberjalyng

Vaccinium vitis-idaea − lyngætt

Nýttir plöntuhlutar: Blöð og ber.
Söfnun: Á vorin og fyrri hluta sumars (blöðin) og haustin (berin).
Virk efni: Sykrur, eríkólín, arbútín, barksýrur og fleiri lífrænar sýrur.
Áhrif: Blöðin eru þvagdrífandi, sýkladrepandi og barkandi ásamt því að eyða steinum í þvagfærum. Berin eru barkandi og kælandi.
Notkun: Rauðberjalyngsblöðin eru góð við öllum sýkingum og steinum í þvagfærum. Einnig þykja þau góð við hvers kyns gigt.
Berin, sem eru auðug af C-vítamíni, þykja góð til átu, þau örva matarlyst og eru góð við niðurgangi.
Kínversk fræði: Rauðberjalyngsblöðin eru vermandi og styrkjandi fyrir Nýrna Yang og Qi. Þau eru þess vegna notuð við gigt í öldruðum sem lagast í hita.

Rauðsmári

Trifolium pratense − ertublómaætt

Nýttir plöntuhlutar: Blómin.
Söfnun: Fyrri hluta sumars.
Virk efni: Salisýlsýra og fleiri lífrænar sýrur, fenólsykrungar og aðrir sykrungar, sykrur, flavonar, kúmarín og estrógenlík efni.
Áhrif: Græðandi, hressandi, þvagdrífandi og losar slím úr öndunarfærum.
Notkun: Rauðsmári er ein besta jurtin við hvers kyns exemi og sóríasis, ekki síst hjá börnum. Rauðsmárinn hefur verið notaður við krabbameini, sérstaklega í brjóstum og eggjastokkum.
Smyrsl unnið úr rauðsmárablómum hefur mikið verið notað gegn húðkrabbameini (sjá uppskrift að tjöruáburði í kafla um blöndun jurtalyfja).
Vegna estrógenlíkra efna í blómunum hafa þau verið notuð til þess að auka frjósemi kvenna og einnig við einkennum tíðahvarfa, sérstaklega nætursvita og svefnörðugleikum.
Kínversk fræði: Rauðsmárablóm styrkja Nýrna Yin og eru notuð við exemi sem einkennist af Þurrki. Þau styrkja Bein og Merg og eru notuð við beinþynningu og gigt hjá öldruðum.

Reynir

Sorbus aucuparia − rósaætt

Nýttir plöntuhlutar: Berin.
Söfnun: Á haustin.
Virk efni: Barksýrur, sorbítól, sorbínsýra, eplasýra, C-vítamín og sykrur.
Áhrif: Barkandi, hægðalosandi, þvagdrífandi, örvar tíðir.
Notkun: Ferskur berjasafi (saft) er notaður sem hægðalyf, sérstaklega fyrir börn. Hann er notaður við særindum í slímhúð meltingarvegar og við hálsbólgu og kvefi og jafnvel berklum. Safinn er einnig notaður til að örva tíðir kvenna.
Þurrkuð eða soðin berin hafa barkandi verkun og eru notuð við niðurgangi, einkum hjá börnum.
Með öðrum jurtum eru berin notuð gegn bjúg.

Reyrgresi

Hierochloë odorata − grasætt

Nýttir plöntuhlutar: Blöðin fyrir blómgun.
Söfnun: Fyrri hluta sumars.
Virk efni: Órannsakað.
Áhrif/notkun: Reyrgresið var talið hjartastyrkjandi, blóðhreinsandi, þvag- og svitadrífandi. Það var notað við bjúg og exemi.
Smyrsl úr blöðunum verka gegn útbrotum á húð, en að öðru leyti er reyrgresi nú lítið notað til lækninga.
Jurtin er ekki æskileg fyrir börn.

 

S

Selgresi

Plantago lanceolata − græðisúruætt

Nýttir plöntuhlutar: Blöðin.
Söfnun: Fyrri hluta sumars.
Virk efni: Slímefni, sykrungar, þ. á m. ákúbín, barksýrur, kísilsambönd og ýmis steinefni.
Áhrif: Styrkir slímhúð í öndunarfærum, dregur úr nefrennsli og er mýkjandi og kælandi, jafnt innvortis sem útvortis.
Notkun: Selgresi er mikið notað til að styrkja slímhúð í hálsi, eyrum og ennisholum. Það þykir gott gegn kvefi.
Einnig þykir selgresið gott við krampakenndum hósta, þar sem jurtin er bæði styrkjandi og mýkjandi.
Útvortis er selgresi gott á bólgu og þrota í húð.
Kínversk fræði: Kínverskir læknar nota bæði blöðin og fræin en í sitthvorum tilgangi. Fræin eru sæt og köld og hafa styrkjandi áhrif á Þvagblöðru, Nýru, Lifrur og Lungu. Þau eru þvagdrífandi og losa Hita úr líkamanum. Þannig eru þau góð til bólgu og særindum í þvagblöðru og þvagrás sem orsakast af Rökum Hita. Þau skýra augun og eru notuð við augnsjúkdómum sem orsakast af ójafnvægi Lifrar og Nýrna, sérstaklega þegar um Hita er að ræða. Þá losa þau um Raka og eru notuð við hósta sem orsakast af Rökum Hita í Lungum.
Blöðin eru sæt og köld og eru ekki talin vera eins gagnleg við þvagfærasýkingu en eru hins vegar talin gagnast betur við að losa Hita úr líkamanum og draga úr Hita-eitrun. Þannig eru blöðin notuð við graftarkýlum og bólguhnúðum.

Sigurskúfur

Epilobium angustifolium − eyrarrósarætt

Nýttir plöntuhlutar: Jurtin öll, að rótinni undanskilinni.
Söfnun: Allt sumarið.
Virk efni: Slímefni, barksýrur og ýmis sölt.
Áhrif: Barkandi, mýkjandi og græðandi, linar krampa.
Notkun: Sigurskúfur er góður við bólgu í meltingarvegi. Vegna eiginleika sinna er jurtin sérstaklega góð við þeim kvilla þegar krampar eða niðurgangur fylgja.
Útvortis er sigurskúfur græðandi og mýkjandi. Sigurskúfur er mjög mild jurt, og má því nota hana jafnt fyrir börn sem fullorðna.

Skarfakál

Cochlearia officinalis − krossblómaætt

Nýttir plöntuhlutar: Blöð og rót.
Söfnun: Fyrri hluta sumars.
Virk efni: C-vítamín og önnur vítamín, bitur efni, barksýrur, sykrungar og sterk olía sem inniheldur m.a. brennistein.
Áhrif: Styrkjandi, þvag- og svitadrífandi, örvar meltingu og hreinsar blóð. Skarfakál er mjög græðandi ef blöðin eru marin og lögð fersk við sár.
Notkun: Löngu áður en menn þekktu vítamín læknaði íslensk alþýða skyrbjúg og ýmsa aðra sjúkdóma með skarfakáli. Núna er skarfakál helst notað við gigt, bjúg og ýmsum húðsjúkdómum, vegna blóðhreinsandi eiginleika jurtarinnar.
Gott er að gera úr jurtinni styrkjandi og hreinsandi urtaveig til notkunar á veturna.

Sóldögg

Drosera rotundifolia − sóldaggarætt

Nýttir plöntuhlutar: Öll jurtin, að rótinni undanskilinni.
Söfnun: Fyrri hluta sumars.
Virk efni: Naftakínon, dróseron, flavonar, barksýrur og aðrar lífrænar sýrur.
Áhrif: Mýkjandi, linar krampa og losar slím úr öndunarfærum og er talin hitastillandi.
Notkun: Sóldöggin sefar krampakennd hóstaköst og hefur verið notuð með góðum árangri við kíghósta. Hún er einnig góð gegn asma og þurrum, kitlandi hósta.
Sóldöggin inniheldur gerladrepandi efni sem talið er að virki gegn ýmsum algengum kvef- og lungnakvefsvaldandi gerlum. Þess vegna er gott að nota jurtina í byrjun slæms kvefs, einkum ef þurr, ertandi hósti fylgir, til að hindra síðari gerlasýkingu. Þá má nota sóldöggina við magabólgu og sárum í meltingarvegi.
Útvortis er ferskur safinn notaður til að bera á vörtur og líkþorn.
Kínversk fræði: Sóldögg er kælandi og styrkir Maga og Lungna Yin.

Sortulyng

Arctostaphylos uva-ursi − lyngætt

Nýttir plöntuhlutar: Fersk eða þurrkuð blöð.
Söfnun: Snemma sumars.
Virk efni: Arbútín, metýlarbútín, flavonar, barksýrur, kvoðungar, allantóín, ilmolíur og ýmsar lífrænar sýrur.
Áhrif: Sótthreinsar þvagrás ásamt því að vera þvagdrífandi, barkandi og mýkjandi.
Notkun: Sortulyng er fyrst og fremst notað til að eyða sýkingu í þvagrás og þvagblöðru. Í líkamanum umbreytist arbútínið í hýdrókínón sem er sótthreinsandi. Hýdrókínónið virkar best ef það er í súru umhverfi.
Sortulyngið má einnig nota við nýrnasteinum og sandi í þvagfærum, það mýkir og auðveldar leið þeirra í gegnum þvagrásina.
Varúð! Takið sortulyng aldrei samfellt um langt skeið, það getur valdið eitrun af völdum hýdrókínóns.
Jurtin er ekki æskileg fyrir börn.

Spánarkerfill

Myrrhis odorata − sveipjurtaætt

Nýttir plöntuhlutar: Öll jurtin, þar með talið fræið.
Söfnun: Blöðin eru best snemmsumars en aðrir hlutar síðar.
Virk efni: Ilmolíur, sem innihalda m.a. anetól, bitur efni, ýmsar aðrar olíur og sykrungar, þ. á m. glýkýrrísín.
Áhrif: Örvar meltingu, linar krampa, er verk- og vindeyðandi, losar slím úr öndunarfærum, verkar vægt blóðþrýstingslækkandi og styrkir hormónakerfið.
Notkun: Spánarkerfill er mest notaður til að bæta meltinguna. Hann þykir góður til að lina mikla vindverki og krampa í þörmum. Jurtin öll þykir góð sem hóstameðal, þar sem hún styrkir lungun og losar þrálátt slím. Rótin er góð fyrir unglinga og konur á breytingaskeiði.
Talið er að rótin eyði sýklum og sé einkum góð við alls kyns sýkingu í öndunarfærum.
Öll jurtin er mjög mild og má því nota hana jafnt fyrir unga sem aldna.
Kínversk fræði: Spánarkerfill styrkir Lifur, Lungu og Milta og réttir við Lifrar Qi. Hann er kælandi og eyðir Raka úr meltingarvegi og Lungum.

Súrsmæra

Oxalis acetosella − súrsmæruætt

Nýttir plöntuhlutar: Blöðin sem fást í heilsubúðum.
Söfnun: Snemmsumars.
Virk efni: Kalíumtvíoxalat, C-vítamín, slímefni og oxalsýra.
Áhrif: Þvagdrífandi, kælandi, barkandi, blóðhreinsandi og styrkjandi fyrir magann.
Notkun: Súrsmæra er góð í te til að svala þorsta og til að lækka háan hita. Jurtin er góð við of mikilli slímmyndum, bæði í meltingar- og þvagfærum. Fyrrum var súrsmæra notuð til að bæta lélega meltingu og hún örvar lítillega matarlyst og dregur úr ógleði.
Kínversk fræði: Súrsmæra er mjög styrkjandi fyrir Milta Qi og hjálpar því til að vinna orku úr fæðunni.
Varúð! Súrsmæra inniheldur mikið af oxalsýru og fólk sem þjáist af gigt eða nýrna- og gallsteinum ætti alls ekki að nota jurtina.

Sæhvönn

Ligusticum scoticum − sveipjurtaætt

Nýttir plöntuhlutar: Rót og fræ.
Söfnun: Rót fyrri hluta sumars, fræ að hausti.
Virk efni: Ilmolíur, mannitól, sykrungar, vítamín og ýmis steinefni.
Áhrif: Verk- og vindeyðandi, örvar meltingu, losar slím úr öndunarfærum, er svitadrífandi og örvar tíðir.
Notkun: Sæhvönnin hefur mjög svipaða verkun og aðrar hvannir. Rótin örvar matarlyst og dregur úr vindverkjum í þörmum. Vegna olíanna er sæhvönnin einnig góð við sýkingu í lungum og þvagfærum.
Fræin eru róandi og eru góð við taugastreitu.
Kínversk fræði: Sæhvönn er beisk og vermandi og hefur áhrif á Lifur og Gallblöðru og Hjartaverndara (Gollurshús). Hún leiðréttir Lifrar Qi og eyðir Raka og Slími. Hún losar um orkustíflur og er góð við þyngslum og verkjum yfir brjósti og í grindarbotni. Sæhvannarrót er mikilvæg jurt í kvensjúkdómalækningum þar sem hún örvar tíðablæðingar og minnkar tíðaverki. Einnig er hún notuð til að auðvelda fæðingu.

Söl

Palmaria palmata − sölvaætt

Nýttir plöntuhlutar: Öll plantan.
Söfnun: Seinni hluta sumars.
Virk efni: Prótín, A- og B-vítamín, sykrungar og ýmis steinefni, t.d. eru söl auðug að joði.
Áhrif/notkun: Sölin eru mjög næringarrík, þau eru hægðalosandi, þvagörvandi og svitadrífandi. Þau örva matarlyst og þorsta. Sölin eru notuð við farveiki, þ.e.a.s. ógleði og svima.
Söl þykja góð við timburmönnum, enda mjög sölt.
Kínversk fræði: Söl hafa áhrif á Hjarta eins og bóluþang. Þau innihalda sykrunga sem sem hafa áhrif á serótónínframleiðslu og eru því notuð gegn þunglyndi og depurð.

 

T

Tágamura

Potentilla anserina − rósaætt

Nýttir plöntuhlutar: Öll jurtin að rótinni undanskilinni.
Söfnun: Fyrri hluta sumars.
Virk efni: Barksýrur, tormentól, bitur efni og flavonar.
Áhrif: Barkandi, linar krampa og eyðir bólgu.
Notkun: Tágamuran er mjög góð við bólgu í meltingarvegi og hún er mikið notuð gegn krampa og niðurgangi. Einnig þykir tágamuran góð við krampa og verkjum í legi.
Eins og aðrar barkandi jurtir er tágamuran góð í skol við bólgu og særindum í munni og hálsi, jafnt fyrir börn sem fullorðna. Hún styrkir tannhold og tannslíður. Hún er einnig notuð í skol við særindum og útferð í leggöngum.
Kínversk fræði: Tágamuran er styrkjandi fyrir Lifur og leiðréttir Lifrar Qi.

Túnfífill

Taraxacum officinale − körfublómaætt

Nýttir plöntuhlutar: Rót og blöð.
Söfnun: Takist fyrir blómgun.
Virk efni: Bitrir sykrungar, þ. á m. taraxakín, efni lík hormónum, þ. á m. sítósteról, taraxasteról og taraxerín, einnig inúlín og aðrar sykrur, barksýrur, vaxefni, ýmis vítamín og steinefni, t.d. mikið af kalíum.
Áhrif: Þvagdrífandi, styrkir lifur og meltingarfæri, örvar hægðir og gallmyndun.
Notkun: Túnfífillinn er mjög mikilvæg lækningajurt. Margir blanda saman rót og blöðum til að nýta verkun beggja hluta sem best.
Blöðin, sem eru mjög næringarrík, verka lítið á lifrina, en eru þvagdrífandi og innihalda mikið af kalíum. Þau eru því mikið notuð við bjúg, einkum ef hann orsakast af máttlitlu hjarta.
Rótin er notuð við öllum lifrar- og gallblöðrusjúkdómum, t.d. gulu, og einnig við meltingartregðu, svefnleysi og þunglyndi. Rótin er mjög góð fyrir fólk sem þarf að styrkja sig eftir langvarandi lyfjatöku eða áfengisneyslu.
Rótin er einnig góð við bjúg sem orsakast af vanvirkri lifur.
Fíflamjólkina má nota á vörtur og líkþorn.
Kínversk fræði: Kínverjar nota alla jurtina með rót, tínda þegar blómin eru við það að opnast. Jurtin er bitur, sæt og kælandi og hefur áhrif á Lifur og Maga. Hún eyðir Hita, sérstaklega Lifrar-Hita, þar sem augun eru rauð og bólgin, og hún vinnur á kýlum og hnúðum, sérstaklega ef þeir eru harðir og eru í brjóstum, smágirni eða þörmum. Túnfífill örvar mjólkurmyndun í brjóstum og er notaður til að eyða Rökum Hita og við þvagfæraeinkennum sem orsakast af Hita eða Raka.

Túnsúra

Rumex acetosa − súruætt

Nýttir plöntuhlutar: Blöðin.
Söfnun: Fyrri hluta sumars.
Virk efni: Oxalsýra, antrakínónar, sykrur, barksýrur og vítamín, þ. á m. A-, B- og C-vítamín.
Áhrif: Þvagdrífandi, hægðalosandi, bólgueyðandi og kælandi.
Notkun: Túnsúra þykir góð við bjúg, einkum ef hann orsakast af vanvirkri lifur sem jurtin er talin örva og styrkja. Einnig er hún góð við lystarleysi, skyrbjúg, hægðatregðu og gyllinæð.
Ef ferskur safinn úr blöðunum er þynntur með ediki er hann hinn ágætasti áburður á húðkvilla, s.s. graftarkýli, sveppasýkingu, kláðaexem og æxli. Best er þá að nota jurtina til inntöku samtímis.
Varúð! Fólk sem þjáist af liðagigt, sérstaklega þvagsýrugigt, ætti ekki að taka inn túnsúru vegna sýruauðgi hennar. Sama máli gegnir um fólk með nýrnasteina og miklar magasýrur. Of stórir skammtar af jurtinni geta leitt til nýrnabilunar.

 

U

Undafífill

Hieracium spp. − körfublómaætt

Nýttir plöntuhlutar: Jurtin öll, að rótinni undanskilinni.
Söfnun: Fyrri hluta sumars.
Virk efni: Ilmolíur, pílósellín, bitur efni, barksýrur, kúmarín, flavonar og gerlaeyðandi efni.
Áhrif: Fersk er jurtin talin hafa gerlaeyðandi áhrif. Fersk og þurrkuð er hún barkandi og þvagdrífandi, hún styrkir og örvar lifrina, eyðir vindi úr meltingarfærum og slími úr öndunarfærum.
Notkun: Undafífill er talinn góður við meltingarkvillum sem stafa af lélegri starfsemi lifrar, einnig er hann góður gegn vindverkjum, bólgu í meltingarvegi, hægðatregðu og niðurgangi sem stafar af lélegri sýringu magans. Jurtin er talin losa gallsteina ef hún er notuð sem hluti í víðtækari meðferð. Undafífill er mjög góður við bjúg, sérstaklega ef vanvirkni lifrar er um að kenna. Einnig hefur undafífill mikið verið notaður við slímkvillum í öndunarfærum.
Útvortis eru laufblöðin mjög græðandi séu þau marin og lögð við brunasár áður en blöðrur koma fram.
Undafífill er samheiti yfir nokkra tugi náskyldra tegunda.

 

V

Vallhumall

Achillea millefolium – körfublómaætt

Nýttir plöntuhlutar: Blóm og blöð.
Söfnun: Fyrri hluta sumars.
Virk efni: Ilmolíur sem innihalda m.a. kíneól, ásúlen, júgenól, tújón, pínen og kamfóru, einnig bitrir sykrungar, blásýrusykrungar, salisýlat, aspargín, kólín, barksýrur og ísóvaleríansýra.
Áhrif: Barkandi og æðavíkkandi, sérstaklega fyrir útæðakerfi og lækkar því blóðþrýsting, einnig svitadrífandi, krampastillandi, róandi og kemur reglu á tíðir.
Útvortis er vallhumall barkandi og græðandi.
Notkun: Gott er að drekka vallhumalste í byrjun flensu eða kvefs. Einnig er gott að drekka það gegn öllum barnaveikindum, s.s. mislingum, kíghósta, rauðum hundum og fleiru slíku. Vallhumall er oft notaður með öðrum jurtum til að lækka blóðþrýsting og eins sem blóðhreinsandi lyf fyrir liðagigt og exem.
Vallhumall er góður við krampa og verkjum í legi, til að örva tíðir og við hitaköstum og svefnleysi á breytingaskeiðinu.
Vallhumall hefur löngum verið talinn ein besta jurtin sem hér er völ á til að græða þrálát sár og er þá unnið smyrsl úr blómunum eða grisja er vætt í seyði og lögð við sárin. Þá má nota baðlög með vallhumli við ýmsum húðkvillum, t.d. ofnæmisútbrotum og exemi.
Kínversk fræði: Vallhumall er styrkjandi fyrir Lifur og Hjarta Yin. Jurtin leiðréttir Lifrar Qi og hefur þannig krampalosandi áhrif víða í líkamanum. Vallhumall er einnig kælandi og er þess vegna góður í upphafi flensu eða hálsbólgu þar sem hiti fylgir og særindi.

Vatnsnarfagras

Catabrosa aquatica − grasætt

Nýttir plöntuhlutar: Öll jurtin.
Söfnun: Fyrri hluta sumars.
Virk efni: Ekki hefur verið kannað hvaða virk efni eru í þessari jurt, en þó er vitað að verkun hennar er tengd rokgjörnum olíum.
Áhrif: Örvar meltingu og hreinsun í lifrinni, bætir iðrakvef og örvar hægðir og tíðablæðingar. Útvortis er vatnsnarfagrasið mjög græðandi.
Notkun: Vatnsnarfagrasið er notað við hægðatregðu og lystarleysi, það þykir sérstaklega gott ef um er að ræða slím í hægðunum.
Útvortis er gott að leggja jurtina við sár sem illa vilja gróa.
Einnig er talið gott að skola sár augu með tei úr vatnsnarfagrasi.

Víðir

Salix spp. − víðisætt

Nýttir plöntuhlutar: Börkur af greinum sem eru tveggja ára eða eldri.
Virk efni: Salisýlöt, þ. á m. salisín, barksýrur og kvoðungar.
Áhrif: Víðir hefur álíka verkun og magnýl og önnur verkjalyf sem innihalda salisýlsýru, að því leyti að hann er verkja- og hitastillandi og bólgueyðandi. Að auki er víðir barkandi, styrkjandi og eyðir sýklum staðbundið.
Notkun: Víðir er mikið notaður við gigt af öllu tagi, sjálfsofnæmissjúkdómum og bólgu í líkamanum. Þá var hann og er mikið notaður vegna hitastillandi eiginleika sinna og hefur það fram yfir magnýl að vera algjörlega skaðlaus. Reyndar er víðir mikið notaður við bólgu og særindum í maga og öðrum hlutum meltingarvegarins.
Víðir er mjög góður við tíðaverkjum og hefur verið notaður með öðrum jurtum við legslímuflakki og með góðum árangri. Víðir hefur mikið verið rannsakaður og nú er talið að hann hafi virkni gegn krabbameinsæxlum, en þá verður að nota sterka urtaveig.
Útvortis má nota víði við bruna og slæmum sárum í húð.
Kínversk fræði: Víðibörkur er styrkjandi, sérstaklega fyrir Milta og eyðir Raka. Hann er kælandi og er þess vegna gott meðal við gigt og öðrum sjúkdómum sem einkennast af Hita og eða Raka, þ.e. bólgnir og heitir liðir og særindi í meltingarvegi og öndunarvegi.

Þ

Þrenningarfjóla

Viola tricolor − fjóluætt

Nýttir plöntuhlutar: Þurrkuð jurtin í blóma, að rótinni undanskilinni.
Söfnun: Fyrri hluta sumars.
Virk efni: Salisýlsýra, salisýlat, beiskjuefni, flavonsykrungar, þ. á m. víólakúersitín, rútín, barksýrur og slímefni.
Áhrif: Bólgueyðandi, þvagdrífandi, losar slím úr öndunarfærum og örvar hægðir og svita.
Notkun: Þrenningarfjólan er notuð sem blóðhreinsandi lyf við alls kyns húðsjúkdómum. Hún þykir sérstaklega góð við sjálfsofnæmissjúkdómum og við ofnæmisútbrotum barna. Þá þykir hún góð við alls kyns gigt og lungnasjúkdómum.
Kínversk fræði: Þrenningarfjólan er styrkjandi fyrir Lifrar Yin og Blóð.

Æ

Ætihvönn

Angelica archangelica − sveipjurtaætt

Nýttir plöntuhlutar: Öll plantan.
Söfnun: Rótum skal safna að hausti á fyrsta ári jurtarinnar. Blöðunum er safnað á sumrin og fræjunum þegar þau eru fullþroskuð.
Virk efni: Ilmolíur, sem innihalda m.a. pellandrín, og pínín. Olíur fræjanna innihalda að auki metýletýlasetýlsýrur og hýdroxýmýristínsýrur. Öll jurtin inniheldur angelínkvoðunga, angelínsýrur, kúmarínefni, bitur efni og barksýrur.
Áhrif: Styrkjandi og vermandi fyrir meltingarfærin, þvagdrífandi, verk- og vindeyðandi, linar krampa, örvar meltingu, eyðir spennu og losar slím.
Notkun: Ætihvönnin er einkar góð fyrir fólk sem er að ná sér eftir erfið veikindi og hefur lélega matarlyst, erfiðar hægðir o.s.frv. Ætihvönnin er notuð gegn meltingartruflunum, s.s. krampa og vindi í meltingarfærum, og kvillum í lifur. Jurtin er mjög góð til að losa slím úr öndunarfærum, þannig að hana má nota við berknakvefi (bronkítis) og brjósthimnubólgu. Ætihvönnin er oft notuð við asma og öðrum lungnakvillum barna.
Fræin eru talin vera styrkjandi fyrir ónæmiskerfið og gagnast þannig gegn krabbameini.
Kínversk fræði: Ætihvönnin styrkir Milta og Lifur og leiðréttir Lifrar Qi.
Varúð! Ætihvönnin hefur tíðalosandi verkun og því ættu ófrískar konur ekki að nota jurtina, sérstaklega ekki á fyrstu mánuðum meðgöngu.
Geithvönn (Angelica sylvestris) hefur svipaða verkun og ætihvönnin og má nota hana á sama hátt. Geithvönnin er þó daufari í allri verkun.