Yin og Yang

yinogyang

Öll lífssýn Kínverja og þar með kínversk og austræn læknisfræði byggir á heimspekinni um Yin og Yang, hinum andstæðu og skapandi öflum náttúrunnar. Elstu umfjöllunina um Yin og Yang er líklega að finna í Bókinni I Ching sem var tekin saman um 700 f.k. Þar er Yin og Yang táknað sem heilar og brotnar línur.

Samstæður af heilum og brotnum línum í pörum mynda fjögur pör af myndum eða táknum sem standa fyrir hið fullkomna Yin og Yin vaxandi, og hið fullkomna Yang og Yang vaxandi.

 

yinogyang_2

 

Með einni línu í viðbót við pörin myndast síðan hinar 8 þrístöfur

 

yinogyang_3

 

Með mismunandi samsetningu mynda svo þrístöfurnar átta hinar 64 sexstöfur. Þessar sexstöfur túlka öll fyrirbærináttúrunnar og þannig er talið að allt styðjist við hina andstæðu póla Yin og Yang.

 

yinogyang_4Flestir kannast við Tai Chi merkið sem lýsir Yin og Yang. Yang er táknað með ljósa fletinum sem eflist og stækkar með rísandi sól og dökki flöturinn er Yin sem vex og stækkar með hnígandi sól. Inni í hvoru fyrir sig er fræ gagnstæða aflsins. Þegar Yang er í hámarki byrjar Yin að sýna sig innan þess og þegar Yin er í hámarki byrjar Yang að sýna sig innan þess. Táknið er ekki kyrrstætt heldur er það hreyfing og ímyndi maður sér það snúast hratt þá sjást fletirnir ekki lengur sem aðskildir heldur sem ein heild, litir Yin og Yang blandast saman og þau lýsa og dekkja hvort annað. Þannig er samspil Yin og Yang í lífinu.

 

Þegar Tai Chi merkinu er raðað með þrístöfunum lítur það svona út:

 

yinogyang_thaichi

 

Fyrri myndin er uppröðun á þrístöfunum sem forskrift að lífinu, sú seinni er forskrift að lífinu eins og á að lifa því. Seinni uppröðunin sýnir þannig eðlilegar hreyfingar og breytingar og þroska.

Vestræn heimspeki byggir á hefðinni frá Platóni og Aristótelesi þar sem heimurinn er útskýrður út frá því hvað hann er og hvað hann er ekki;  “að vera eða vera ekki” eða “annaðhvort eða”; t.d dæmis er flötur hringlaga eða ekki hringlaga. Kenningin um Yin og Yang er gjörólík þessum hugsanagangi. Yin og Yang eru í senn andstæður og samstæður, öfl sem styðja og næra hvort annað. Öfl sem skapa hvort annað og viðhalda hvert öðru.Í Kínverskri heimspeki er ekki neitt talið varanlegt, svart eða hvítt, heldur er alltaf horft til síbreytileika náttúrunnar. Setning Shakespears, to be or not be, væri líklega hjá Kínverjum to be and not to be.

Heimspekiskólinn sem þróaði kenninguna um Yin og Yang var kallaður einfaldlega Yin-Yang skólinn.  Heimspekihefð Yin og Yang varð til og mótaðist á tímaskeiði ríkjastríðanna í Kína (476 – 221 f.k.). Yin-Yang skólinn var nefndur náttúruskólinn því hann leitaðist við að túlka fyrirbærin í náttúrunni og að skýra út náttúrulögmálin til að hjálpa manninum og að finna leiðir fyrir manninn til að lifa samkvæmt náttúrulögmálunum, að öðlast lífsgæði og góða heilsu. Skólinn þróaði heimspekina um Yin og Yang og síðar heimspekina um frumöflin fimm til þess að túlka framrás allrar lífsorku, bæði í náttúrunni, í heilsu mannsins og í sjúkdómum.

Yin og Yang standa fyrir skugga- og sólarhlið fjalls, eins og kínversku karakterarnir sem tákna Yin og Yang sýna.

 

yinogyang

 

Það er talið líklegt að upphaflega hafi Yin og Yang kenningin orðið til meðal bænda sem áttu allt sitt undir náttúrunni og fylgdust náið með gangi sólar og sáu hvernig dagur og nótt mynduðu heild jafnt í stöðugleika sínum sem og í breytileikanum. Þannig upplifði fólk daginn sem Yang og nóttina sem Yin. Virkni og starfsemi voru Yang og hvíld og svefn Yin. Þetta leiddi til fyrstu skoðunar á  því hvernig öll fyrirbæri breyttust á milli hinna tveggja póla. Ljós breyttist í myrkur og myrkur aftur í ljós, líf breyttist í stöðugleika og þaðan í dauða uns það síðar kviknaði á ný sem líf.

Til að skilgreina Yin og Yang í grófum dráttum þá eru hlutir og hugtök flokkaðir sem annað hvort Yin eða Yang (sjá töflu fyrir neðan) en ekkert er í raun Yin eða Yang heldur blanda af hvorutveggja. það er einungis í samanburði við annað sem eitt getur verið meira Yin eða meira Yang. Jörðin er þannig Yin í samanburði við himininn en jörðin er ekki eingöngu Yin því þá myndi hún ekki hreyfast og bera líf og himininn er ekki eingöngu Yang því þá myndum við ekki vera vör við nærveru hans. Sama gildir um öll hugtökin hér að neðan.

Yin_Yang_tafla1

Á himininn er litið sem ljósan og léttan og samsvarar hann því Yang en jörðin er talin þung og köld og samsvarar hún því Yin. Í fornöld var himininn talinn hringlaga og kúptur og jörðin var talin flöt. Þannig varð hringur tákn fyrir Yang og ferhyrningur tákn fyrir Yin. Himininn umvefur sólina, tunglið og stjörnurnar, sem fólk hér áður fyrr notaði til útreikninga á dagatalinu, og sem er Yang. Jörðin breiðir úr sér í allar áttir og var þannig tákn fyrir rýmið, sem er Yin.
Sólin rís í austri og sest í vestri, þannig að austrið er talið til Yang eða rísandi orka og vestrið er Yin. Kínverjar merkja áttirnar ávallt út frá því að horft sé í suður en það er ólíkt kerfinu sem notað er á Vesturlöndum og ef við horfum í suður er austur okkur til vinstri handar og vestur til
hægri. Þannig er áttin til vinstri talin Yang og áttin til hægri Yin.

Þannig er Yin og Yang upprunalega túlkun hins eilíflega samstarfs tíma og rúms. Hvert einasta fyrirbæri í náttúrunni breytist samkvæmt rísandi og hnígandi hringlaga munstri. Dagur breytist í nótt og nótt í dag, sumar breytist í vetur,  gróður sölnar, visnar og deyr og breytist síðan aftur í líf. Þannig ákvarðast öll fyrirbærií alheiminum af samspili þessara tveggja póla sem eru túlkaðir sem Yin og Yang og þannig innihalda öll fyrirbærií sér báðar þessar andstæður í mismunandi kraftbirtingu. Dagurinn tilheyrir Yang en eftir að dagurinn öðlast sitt hámark um hádegi þá fer Yin, sem dvelur eilíflega innra með Yang, vaxandi, hægt en örugglega. Þannig eru allir hlutir annað hvort Yin eða Yang í eðli sínu, þann tíma sem það varir, en síðan umbreytist allt í hinn pólinn.

Það sama á sér stað með árshringinn:
Vor er dögun, Yang innan Yin, Yang sem fer vaxandi.
Sumar er hádegi, Yang innan Yang, Yang í hámarki.
Haust er rökkur, Yin innan Yang, Yin fer vaxandi.
Vetur er nóttin, Yin innan Yin, Yin í hámarki.

Í sínu tærasta formi er Yang algjörlega efnislaust og samsvarar hreinni orku, og Yin, í sínu grófasta og þykkasta formi samsvarar hráu og líflausu efni. Frá þessum sjónarhóli eru orka og efni aðeins tvö stig samsöfnunar eða þéttleika. Yang er túlkun á sköpun og virkni og samsvarar útvíkkun og rís þess vegna upp á við. Yin er túlkun á þykknun og efnamyndun og samsvarar samdragandi áhrifum og sekkur þannig.

  • þó svo að Yin og Yang séu ólíkir pólar og ólík stig, þá eru Yin og Yang í raun heild og þau styðja hvort við annað. Yin getur ekki verið til án Yang og öfugt. Allt á sína andstæðu sem er gjörólíkt því sjálfu og ekkert lifir án andstæðu sinnar.
  • Yang inniheldur fræ Yin og öfugt; Yin og Yang eru stöðugt í jafnvægisleit. Jafnvægið helst með stöðugum smábreytingum á Yin miðað við Yang og öfugt. Þegar annaðhvort er úr jafnvægi, hefur það áhrif á stöðugleika hins sem breytist í magni eða formi til að halda jafnvæginu.
  • Ekkert er algerlega Yang eða algerlega Yin.
  • Yang breytist í Yin og Yin í Yang; Yin og Yang eru ekki stöðluð  heldur breytast þau í raun í hvort annað á ákveðnum stigum þróunar. Sumar breytist í vetur, dagur í nótt, líf breytist í dauða og hamingja breytist í óhamingju og svo öfugt.

Notkun Yin og Yang í lækningum
Það má segja að öll kínversk læknisfræði sé byggð út frá heimssýninni um Yin og Yang. Líffræði og allt líffræðilegt ferli, sjúkdómafræði, sjúkdómsgreining og meðferð. Allt er þetta háð kenningunni um Yin og Yang. Þegar upp er staðið má segja að allri meðferð sé beitt til þess að leiðrétta þetta “einfalda” ójafnvægi sem skapast getur á Yin og Yang. Þ.e.:

  • Að styrkja Yang eða að styrkja Yin
  • Að eyða of-miklu Yang eða að eyða of-miklu Yin

Skilningur á notkun Yin og Yang í meðferð er því undirstaða allrar Kínverskrar læknisfræði og það er óhætt að segja að án þessa skilnings og kunnáttu sé ekki um kínverskar lækningar að ræða.

Yin og Yang og líkamsbygging
Hver einasti líkamshluti er meira eða minna Yin eða Yang. Allt er viðmiðun við annað. T.d. er bringan Yang miðað við fæturna, en Yin miðað við höfuðið.

Yin_Yang_tafla2

Andstæður Yin og Yang sýna sig í læknisfræðinni í andstæðum Yin og Yang formsins í líkamanum, í andstæðum Yin og Yang líffæranna og ekki hvað síst í þeim andstæðum Yin og Yang sem sjást í sjúkdómafræðinni og sjúkdómseinkennafræðunum. Ekki skiptir máli hversu flókin einkennin virðast vera, þau má alltaf heimfæra upp á jafnvægi/ójafnvægi á Yin og Yang. Taflan hér að neðan sýnir í grófum dráttum muninn á Yin og Yang einkennum sjúkdóma og ójafnvægis í líkamanum.

Yin_Yang_tafla3

Yin_Yang_tafla4