Hinar Átta Sérstöku (eða Sérstæðu) Orkubrautir

Hinar Átta Sérstöku Orkubrautir eru kallaðar “Qi Jing Ba Mai” sem er þýtt sem hinar átta undarlegu, skrýtnu, dularfullu, sérstæðu eða einstöku orkubrautir.
Flestar af Hinum Átta Sérstöku Orkubrautum kvíslast út frá hinum tólf aðal-orkubrautum og þær hjálpa með orkustreymi um líkamann. Þær hjálpa til að viðhalda jafnvægi í líkamanum og sökum þess að margar meðferðir hafa einungis gengið upp með meðhöndlun á þeim eru þær einnig kallaðar hinar átta kraftaverkabrautir.
Hinar Átta Sérstöku Orkubrautir hafa mikil áhrif á andlega líðan og eru því stundum nefndar hinar átta sálarbrautir og eru stjórnunarpunktar þeirra, tveir fyrir hverja braut, mikið notaðir til meðferðar á andlegum veikindum.

Hinar Átta Sérstöku Orkubrautir eru:

1. Du Mai, stjórnunarbraut Yang orku og sköpunar
2. Ren Mai, stjórnunarbraut Yin orku, hugmyndaflæðis og getnaðar
3. Chong Mai, orkubraut gegnflæðis blóðs og orku
4. Dai Mai, beltisbrautin
5. Yang Qiao Mai, Yang hæl braut
6. Yin Qiao Mai, Yin hæl braut
7. Yang Wai Mai, Yang tengingarbraut
8. Yin Wai Mai, Yin tengingarbraut

 

Starfsemi Hinna Átta Sérstöku Orkubrauta

1. Þær þjóna sem forðageymslur eða orkuþrær

Vegna þess hversu ólíkar Hinar Átta Sérstöku Orkubrautir eru hvor frá annarri er erfitt að eigna þeim sameiginlega starfsemi. Þó segir í Nan Jing að hinar 12 hefðbundnu orkurásir séu sem ár og Hinar Átta Sérstöku Orkubrautir séu sem orkuþrær.

Þessar orkuþrær, og þá sér í lagi Ren og Du Mai, taka ofgnótt af orku frá aðalbrautunum og geta skilað henni aftur þegar þörf er á.

Þær bera með sér allar tegundir orku, Yin Qi, Wei Qi, Jing Qi og blóð.
Þegar hinar 12 aðalbrautir skortir orku gefa Hinar Átta Sérstöku Orkubrautir hanafrá sér. Einnig er hægt að ná til þessa forða með því að setja nálar í stjórnpunkta rásanna.

2. Þær verja ákveðin líkamssvæði gegn utanaðkomandi innrás

Sú orka sem ver líkamann er Wei Qi og meðal Hinna Átta Sérstöku Orkubrauta eru það nær eingöngu Chong Mai, Du Mai og Ren Mai sem sjá um að verja. Chong Mai og Ren Mai verja líkamann að framan og Du Mai að aftan.

3. Þær stjórna breytingum og þroska líkamans

Samkvæmt Su Wen eru það Chong og Ren Mai sem stjórna þeim breytingum sem karlinn gengur í gegnum á 8 ára fresti og konan á 7 ára fresti.

Allar Hinar Átta Sérstöku Orkubrautir hafa með hormóna líkamans að gera, bæði framleiðslu þeirra og dreifingu.

4. Þær sjá um dreifingu Jing Qi, eða næringarorku til alls líkamans, og þá sérstaklega til hinna 5 “fornu líffæra” sem eru Heili, Gallblaðra, Beinmergur, Leg og Æðar.

Hinar Átta Sérstöku Orkubrautir eru paraðar saman, og hafa áhrif á ákveðin líkamssvæði þannig:
Ren Mai og Yin Qiao Mai hafa áhrif á bringu, maga, lungu, háls og andlit.

Du Mai og Yang Qiao Mai hafa áhrif aftan á fótleggjum, bak, mænu, háls, höfuð, augu og heila.
Chong Mai og Yin Wei Mai hafa áhrif á innanverða fótleggi, maga, bringu, hjarta og maga.

Dai Mai og Yang Wei Mai hafa áhrif á utanverða fótleggi, hliðar líkamans, axlir og hliðar hálsins.

1. Du Mai

dumai_1Du Mai á upptök sín í hægra nýra, þaðan sem rásin fer niður til Ren 1, síðan aftur á bak til Du 1 þar sem hún kemur upp að yfirborði og ferðast síðan upp með hryggnum. Du Mai fer upp allt bakið, upp yfir höfuðið, þar sem grein af rásinni fer inn til heilans, niður ennið, nefið og efri vör, þaðan sem hún liggur inn í munn og endar í Du 28 sem er milli varar og góms.

Du Mai tengir alla Yang-orku líkamans saman, og er brautin sögð stjórna Yang-orkunni. Vegna þessa hlutverks er hún einnig nefnd “Haf Yang orkurása”. Þetta sést einnig á því hvernig hún ferðast, þ.e. hún fer yfir þau líkamssvæði sem eru mest Yang.

Du Mai hefur yfirráð yfir öllum Yang orkubrautunum sem þýðir að hana má nota til að auka eða minnka Yang orku í líkamanum.

Ef Yang-orka er of mikil veldur það stíflum í Du Mai, sem lýsir sér sem hálsrígur, höfuðverkur og verkur bak við augu.

Ef Yang-orka er ekki nægileg, sígur háls og höfuð fram á við og höfuðið virkar þungt. Einnig getur orðið vart við skjálfta sem getur lýst sér eins og Parkinson skjálfti.

Vegna tengsla sinna við grindarhol geta einkenni eins og gyllinæð, ófrjósemi, þvageinkenni margskonar og líffærasig verið tengd Du Mai.

Du Mai er mjög tengd Nýrunum og er brautin því mikilvæg í öllum gigtarsjúkdómum, sérstaklega ef um er að ræða gigt í hrygg, háls eða höfði.

Du Mai hefur með heila og mænukerfi að gera og allt ójafnvægi í þessum kerfum, svo og í heila og mænuvökva, tengist brautinni og má meðhöndla með henni.

Du Mai má nota til að styrkja Nýrna Yang-orku og þá sérstaklega við einkennum eins og krónískum bak- og hálsverkjum, við einkennum Vinds í líkama eins og byrjunareinkennum flensu og ofnæmiseinkennum í höfði og andliti og til þess að styrkja mænu og heila þegar vart verður við einkenni eins og svima, skjálfta, minnisglöp og suð í eyrum.

Du Mai og Ren Mai eru einu sérstæðu orkubrautirnar sem hafa sína eigin punkta á rásinni sem tilheyrir þeim.

Stjórnunarpunktur Du Mai er Smágirni 3, og samtengipunkturinn er Þvagblaðra 62.

2. Ren Mai

renmai_1Ren þýðir stefna og ábyrgð.

Ren Mai hefur mikið að gera með dreifingu Qi um líkamann, hún er aðal Yin orkubraut líkamans og hún hefur yfirumsjón yfir og leiðbeinir Yin rásunum, plús Maga rásinni.

Ren Mai er tengd Chong Mai og Yin Wei Mai og hún getur bæði aukið og minnkað Yin orku líkamans.
Ren Mai nærir legið og þá vefi og líffæri sem tengjast æxlun og getnaði.

Í ritinu Nei Jing segir að Chong Mai og Ren Mai innihaldi báðar Blóð og Kjarna, og að þær flæði báðar upp til andlitsins og kringum munninn. Í mönnum innihalda þessar rásir meira af Blóði en Kjarna, og vegna þess að á hár er litið sem afrakstur Blóðs örva þessar brautir hárvöxt í andliti og á líkama. Vegna þess að konur tapa blóði með tíðablæðingum er minna blóð í þessum rásum hjá þeim og þessvegna hafa konur minna líkamshár en karlmenn.

Því var lýst í Su Wen að bæði Chong Mai og Ren Mai hefðu með líkams- og lífsbreytingar að gera, þ.e. þær breytingar sem konur upplifa hvert sjöunda ár og karlmenn hvert áttunda. Það eru þessar rásir sem stýra meiriháttar breytingum í lífi okkar og þroska.

Að auki dreifir Ren Mai Wei Qi, eða varnarorku um líkamann framanverðan og gegnir mikilvægu hlutverki í dreifingu likamsvökva um líkamann.

Ren Mai ber með sér Yin-orku og er þessvegna mikið meðhöndluð hjá konum við alls kyns hormónaóreglu. Vegna sterkra áhrifa á grindarbotn er Ren Mai meðhöndluð við óreglu á blæðingum, ófrjósemi, tíðahvarfseinkennum og óeðlilegum vefjavexti í legi og við eggjastokka.

Vegna tengingar sinnar við Lungna-rás og Lungu er Ren Mai einnig notuð við sjúkdómum í lungum eins og astma og krónískri lungnabólgu.

Ren Mai byrjar í grindarbotni, og kemur fram að yfirborði líkamans í Ren 1, þaðan sem hún ferðast upp með líkamanum framanverðum um miðlínuna. Hún fer upp allan frambúkinn, hálsinn og upp hökuna að Ren 24, þaðan sem hún fer í kringum varirnar, í gegn um Maga 4, sitthvoru megin við munninn, og upp í Maga 1, þaðan sem hún fer til augnanna.

Du Mai og Ren Mai eru einu sérstæðu orkubrautirnar sem hafa sína eigin punkta á rásinni sem tilheyrir þeim.

Stjórnunarpunktur Ren Mai er Lungu 7 og samtengipunktur er Nýru 6.

3. Chong Mai

chongmai_1Ein aðalstarfsemi Chong Mai er að tengjast og styrkja Ren Mai. Hér er um að ræða samvirkni Chong og Ren Mai með Qi. Sameiginlega styrkja þessar tvær brautir Nýrna Qi.

Chong Mai er sögð eiga upptök sín í nýrunum, þaðan sem hún ferðast til legsins í konum og síðan til Ren 1, en beint til Ren 1 í karlmönnum. Frá Ren 1 fer brautin til Ren 4 og þaðan út í nýrnabrautina þar sem hún mætir henni í Nýru 11. Chong Mai ferðast þaðan með Nýrnabrautinni upp kviðinn að Nýru 21. Á leiðinni upp dreifir hún orku sinni til líffæra og líkamshluta. Frá Nýru 21 fer brautin upp brjósthol og háls, í gegn um Ren 23 til að kvíslast í kringum munninn.

Chong Mai er sögð vera Haf Blóðsins vegna áhrifa sinna á tíðablæðingar.

Hún er einnig nefnd Haf Hinna 12 Orkubrauta vegna allra tengiliðanna sem hún hefur við aðrar orkubrautir, sérstaklega í kvið og brjósti. Hún heldur reglu á starfsemi allra sina og orkubrauta. Neðri hluti Chong Mai er tengd öllum Yin brautunum og efri hluti hennar er tengd öllum Yang orkubrautum.

Aðaleinkenni truflunar í Chong Mai eru verkir fyrir brjósti, eins og haldið sé um brjóst og hjarta, og stíflu-tilfinning í brjóstholi. Einnig uppþemba og vindgangur, verkir eftir máltíðir, ropi og hæg melting þannig að heyra má í görnum.
Vegna áhrifa sinna á leg og tíðablóð veldur truflun á Chong Mai því meðal annars að blæðingar truflast og að legkaka getur orðið eftir í fæðingu.

Önnur einkenni geta verið vandamál með meltingu, lystarstol, uppköst, hægur hjartsláttur, bólga í hjartavöðva og sláttarónot (palpitations).

Opnunarpunktur Chong Mai er Milta 4 og samtengipunktur er Hjartaverndari 6.

4. Dai Mai

daimai_1Dai Mai er beltis-rásin. Hún er eina rásin sem gyrðir sig um líkamann og hún sér um að orkuflæði allra orkubrauta líkamans sé í jafnvægi.

Aðalhlutverk Dai Mai er að halda reglu á orku Gallblöðru, jafnframt því sem hún viðheldur jafnvægi Qi á lárétta planinu. Ef Dai Mai er ekki í jafnvægi tapar manneskjan jafnvægi sínu, líkamlegu jafnt sem andlegu.

Dai Mai er sögð eiga upptök sín í Lifur 13, þó sumir vilji meina að hún eigi upptök í Gallblöðru 26, 27 og 28. Dai Mai fær orku sína frá Lifur og Gallblöðru og upprunalegu orkuna frá Nýrunum og hún liggur um mittissvæðið eins og þykkt belti þar sem hún heldur utan um þær orkubrautir sem liggja í gegn um hana frá fótum til búks.

Truflanir í starfsemi Dai Mai eru m.a. þung miðja, hangandi magi og sú tilfinning að manneskjan sitji í vatni. Önnur einkenni geta verið hjá konum, mikil útferð og krampar í legi, með eða utan við tíðablæðingar.

Vegna áhrifa Dai Mai sem vöðvaslakandi og krampalosandi hefur hún mikið að gera með bakverki, sérstaklega þegar verkir leiða til mjaðma og niður í fætur og gigtarverki, svo og stífni, höfuðverki og jafnvægisleysi vegna eyrnavandamála.

Opnunarpunktur Dai Mai er Gallblaðra 41 og samtengipunktur er Þrír Hitarar 5.

5. Yang Qiao Mai

yang_qiao_mai_1Yang og Yin Qiao Mai mynda par á þann hátt að Yang Qiao Mai er séð sem kvísl af Þvagblöðrurás og Yin Qiao Mai sem kvísl af Nýrnarás. Í Nei Jing er sagt að Yang Qiao Mai beri orku Himnanna og að Yin Qiao Mai beri orku Jarðar. Yin Qiao skiptir meira máli fyrir konur og er meira notuð fyrir þær enYang Qiao skiptir meira máli fyrir karla. Þegar þessar tvær rásir eru í jafnvægi bera þær orku og raka til augnanna og halda jafnvægi milli hliða líkamans.

Rásirnar tvær eru einnig mikilvægar fyrir vöðvana í fótunum og ef Yang Qiao er í ójafnvægi verða utanverðir fótleggir stífir og innanverðir slakir eða öfugt ef Yin Qiao er í ójafnvægi.

Báðar rásirnar hafa með liðamót að gera og eru meðhöndlaðar þegar um liðagigt eða annað ójafnvægi í liðamótum er að ræða. Einnig getur orðið truflun á öðrum helmingi líkamans ef önnur hvor rásin truflast.

Yang Qiao Mai ber ofgnótt af Yang frá höfði og má nota við einkennum eins og lömun í andliti, taugaverkjum og skjálfta í höfði.

Hún er notuð við einkennum vinds í höfði, eins og flensueinkennum og ofnæmiseinkennum ýmis konar og vegna áhrifa sinna á hliðar líkamans er Yang Qiao Mai mjög áhrifarík við bakverk sem ber einkenni ofgnóttar (Shi), verkur sem er verri öðrum megin og liggur niður aftanverðan fót eftir Þvagblöðrurás.

Einnig er Yang Qiao Mai oft notuð við taugaveiklun hjá ungum mönnum sem lýsir sér meðal annars með höfuðeinkennum eins og roða í andliti eða skjálfta í höfði.

Yang Qiao Mai byrjar í Þvagblöðru 62, við utanverðan hæl, fer upp í Þvagblöðru 61 og upp utanverðan fótlegg til Gallblöðru 29, síðan upp búkinn utanverðan til Smágirna 10 og yfir öxlina til Ristils 15 og 16, þaðan upp hálsinn og yfir til neðri kjálka að Maga 4, 3 og 1, þaðan til Þvagblöðru 1 og upp og yfir höfuð til Gallblöðru 20, þar sem hún endar.

Stjórnunarpunktur Yang Qiao Mai er Þvagblaðra 62 og samtengipunktur er Smágirni 3.

6. Yin Qiao Mai

yin_qiao_mai_1Yin Qiao Mai byrjar í Nýru 2, við innanverðan hæl, fer upp innanverðan fót til Nýrna 6 og til Nýrna 8 og áfram upp að nára. Þaðan ferðast rásin að kynfærum og síðan upp búkinn framanverðan, upp að viðbeini, þar sem rásin er nær yfirborði líkamans. Héðan fer hún upp hálsinn framanverðan og endar í Þvagblöðru 1, við innanverða augnkróka þar sem hún tengist Yang Qiao Mai.

Yin Qiao Mai tengist Yin og augunum og er mikið notuð við alls kyns svefntruflunum og óróleika hjá konum. Brautin hefur einnig sterk áhrif á vöðva innanverðra fótleggja og er notuð við sumum tegundum rýrnarsjúkdóma, þar sem vöðvar innanverðra fótleggja eru of veikir eða of stífir.

Yin Qiao Mai er einnig notuð við margskyns einkennum ofgnóttar af orku og efni í grindarbotni hjá konum, eins og við blöðru- og æxlamyndun.

Starfsemi þessara tveggja orkubrauta, Yin og Yang Qiao Mai er svo samtvinnuð að erfitt getur verið að greina hvor er í ójafnvægi og hvor er heil því truflun í báðum rásum geta valdið svipuðum einkennum og oft þarf að meðhöndla báðar rásir til að ná fram lækningaráhrifum þeirra.

 

7. Yang Wei Mai

yang_wei_mai_1Yang Wei Mai er oft kölluð Yang-festibrautin. Hún heldur saman og styrkir Yang orkubrautir líkamans. Hún er tengibraut Yang-orku líkamans og sér þar með um að öll Yang-orkan sem við eigum nái að flæða um Yang orkurásirnar. Sama máli gegnir um Yin Wei Mai, hún heldur Yin orkurásunum saman og sér til þess að Yin-orka sú sem við eigum nái að flæða um Yin orkubrautirnar.

Þessar tvær orkubrautir Yin og Yang Wei Mai tengjast og sjá til þess að samskipti og tengsl séu ætíð milli Yin- og Yang-orku líkamans. Ef þessi tengsl truflast eða rofna, getur það leitt til þess að manneskjan missi bæði viljakraftinn og líkamskraftinn.

Ef Yang Wei Mai ein er trufluð getur það leitt til skjálfta og ósamræmis í Yin- og Yang-orku líkamans, þannig að manneskjunni verður annaðhvort of heitt eða of kalt á ákveðnum líkamspörtum. Ef Yin Wei Mai ein er trufluð getur það leitt til verkja í brjósti og hjarta.

Yang wei Mai er notuð við hitatruflunum í líkamanum svo og við utanaðkomandi sjúkleika sem veldur hita og sem kemur og fer. Brautin hefur sterk áhrif á hliðar líkamans og er því notuð við verkjum sem liggja eftir brautinni, sérstaklega taugaverkjum sem liggja niður utanverðan fótlegg. Yang wei Mai hefur einnig sterk áhrif á eyru vegna samskipta sinna við Gallblöðrurás og er notuð við vandamálum sem tengjast eyrunum eins og svima og heyrnarleysi.

Yang Wei Mai er oft notuð ef um er að ræða húðsjúkdóma, eins og gelgjubólur, kýli og því um líkt. Einnig er rásin notuð við meðferð á sumum tegundum gigtar, þá sérstaklega gigtar sem nær til húðar. Rásin er mikið tengd öxlum og höfði þannig að gigt á þessum stöðum má oft hjálpa með því að vinna með Yang Wei Mai.

Ekki eru allir sammmála um hvernig brautin liggur en almennasta skoðunin er þessi: Yang Wei Mai á upptök sín í Þvagblöðru 63, á utanverðum hæl, þaðan sem hún ferðast upp utanverðan fótlegg, í gegn um Gallblöðru 35 og upp utanverðan búk. Hún tengist Gallblöðru 29, þaðan sem hún fer upp að öxl þar sem hún tengist punktum á Ristli, Þrem hiturum og Gallblöðrurás. Síðan fer hún upp hálsinn að DU 15 og 16, til hliðar til Gallblöðru 20, og þaðan upp og fram yfir höfuðið til Gallblöðru 13.

Opnunarpunktur Yang Wei Mai er Þrír Hitarar 5 og samtengipunktur er Gallblaðra 41.

8. Yin Wei Mai

yin_wei_mai_1Yin Wei Mai er talin vera kvísl af Nýrnabraut. Hún byrjar í Nýrum 9, á innanverðum fótlegg, og fer upp innanverðan fótlegg, upp framanverðan búk, þar sem hún tengist Milta 13, 15, 16 og Lifur 14. Frá búknum ferðast rásin upp hálsinn að framanverðu og endar í Ren 22 og 23.

Yin Wei Mai hefur sterk tengsl við Nýru-, Milta- og Lifrar-orkubrautirnar. Einnig tengist hún Ren Mai og Chong Mai og er talin hafa að geyma upprunalegt Qi eins og hinar tvær rásirnar.

Brautin styrkir Blóð og tengist Hjarta í gegn um opnunarpunktinn og er þ.a.l. notuð við einkennum frá hjarta eins og þrýstingi og óþægindum í brjóstkassa, hjartsláttareinkennum og kvíða.

Ef Yin Wei Mai er í ójafnvægi reiðist manneskjan auðveldlega, og andvarpar í angist sinni. Oft fær manneskjan einnig brjóstverki.

Eins og segir: Yin verður að blóði og hjartað tilheyrir blóði, þar af leiðandi vilja sumir meina að í öllum truflunum Yin Wei Mai verði vart við hjarta-angist. Yin Wei Mai tengist einnig sterklega skjaldkirtli og misræmi í skjaldkirtli má oft bæta með meðhöndlun á Yin Wei Mai.

Opnunarpunktur Yin Wei Mai er Hjartaverndari 6 og samtengipunktur er Milta 4.