Um nálastungur

Nálastungur eru mikilvægur hluti af ævafornu kerfi lækninga sem nefnist kínverskar lækningar. Í þessu kerfi eru einnig grasalækningar, nudd, næringarfræði og æfingartækni sem nefnist Qi-gong.

Nálastungur byggjast á þeim fræðum og heimspeki sem er undirstaða kínverskra lækninga og hver sá sem telur mögulegt að nota nálastungur án þessarar þekkingar, í einhverju samræmi við vestrænar lækningar, hefur láðst að ná kjarna þessarar meðferðartækni. Skilningur á kínverskri læknisfræði krefst margra ára náms og verklegrar æfingar undir leiðsögn kennara, og það er einungis í gegnum þá leið sem nálastungumeðferð getur verið beitt sem árangursríkri lækningaraðferð.

Nálastungur, sem enn þann dag í dag eru stundaðar víðast í Austurlöndum fjær, gegna nú vaxandi vinsældum í öðrum löndum heims. Þær eru byggðar á nákvæmri og flókinni greiningu á einkennum og þörfum hvers og eins. Engir tveir eru meðhöndlaðir eins jafnvel þó þeir leiti til sama nálastungulæknis og lýsi, að því er virðist, nákvæmlega sömu sjúkdómseinkennum. Þegar vestræn læknisfræði kom fyrst til Austurlanda voru Kínverskir læknar forviða yfir aðferðum Vestrænna lækna sem gáfu fólki sem þjáðist af sömu sjúkdómseinkennum sömu lyfin jafnvel þó svo að líkamsgerð fólks og aðstæður væru gjörólíkar.

Eins og aðrar greinar kínverskra lækninga eru nálastungur heildræn meðferð. Þær miðast við að lækna og viðhalda heilbrigði manneskjunnar frekar en að lækna einn aðskildan líkamspart. Andi og líkami manneskjunnar hafa aldrei verið aðskilin hugtök í Kínverskri læknisfræði heldur er manneskjan séð sem ein heild, ein fullkomin, jafnvægisleitandi lífvera. Ef sjúkdómur nær bólfestu í líkama eða huga hefur jafnvægi tapast og það er þessi jafnvægistruflun sem þarf að meðhöndla á sama tíma og unnið er á sjúkdómnum. Ef það er ekki gert fylgir nýtt sjúkdómsmunstur á hæla þess sem unnið er bug á. Þegar nálastungur eru notaðar til lækninga á krónískum sjúkdómum verður fólk oft hissa á því hversu aðrir kvillar virðast hverfa með meðferðinni, eitthvað sem skeður sjaldan þegar vestrænum lyflæknisaðferðum er beitt, þar sem þvert á móti bætast oft við nýir kvillar við hverja nýja lyfjagjöf.

Hér á Vesturlöndum eru nálastungur þekktastar sem verkjalækningar en saga lækninganna segir að aðferðinni hafi ávallt verið beitt við öllum tegundum sjúkdóma og ójafnvægis, hvort sem sjúkdómurinn hefur verið af andlegum eða líkamlegum toga. Fólk spyr gjarna hvort nálastungur gagnist við hinum eða þessum sjúkdómum og svarið er að ef nálastungulæknirinn getur greint ójafnvægið og manneskjuna sem þjáist af því rétt, geta nálastungur bætt líkamlegt og andlegt heilbrigði manneskjunnar sem þjáist. Stundum læknast sjúkdómar með meðferðinni en stundum er ójafnvægið það langt á veg komið að það er ekki hægt að lækna, en með því að bæta almennt heilbrigði manneskjunnar minnka sjúkdómseinkennin, oft verulega og/eða verða bærilegri.

Höfuðatriði í endurbyggingu heilbrigðis með nálastungum

Fólk hefur ótrúlegan kraft í sér til lækninga og leiðréttingar á ójafnvægi líkama og hugar. Ef svo væri ekki myndu kvef, sýkingar, streita, tilfinningalegt álag og slys skilja hverja manneskju eftir sem líkamlega og andlega rúst. Þessi náttúrulegi innbyggði kraftur hverrar manneskju sækir eðlilega í jafnvægi á líkama og sál. Með nálastungulækningum leitast meðferðaraðilinn við að aðstoða þessa eðlilegu jafnvægishneigð manneskjunnar. Þannig er með þessari lækningaraðferð leitast við að ná og viðhalda heilbrigði frekar en að “berjast” við sjúkdóma.

Vegna gagnsemi nálastungulækninga til að viðhalda heilbrigði hefur aðferðin mikið verið nýtt sem fyrirbyggjandi meðferð. Sjúkdómar verða ekki til á einni nóttu heldur oft á mörgum árum eftir að ójafnvægi er orðið verulegt. Með réttri greiningu á manneskjunni má fyrirbyggja sjúkdóma með nálastungum með því að leiðrétta ójafnvægið sem fyrir er. Þannig er hægt að byggja upp ónæmiskerfi fólks, bæta almenna líðan og orku, bæði andlega og líkamlega og auka kraft líkamans til að lækna sig sjálfan.

Meðferð með nálastungum byggist á greiningu á mynstri ójafnvægis og notkun á punktum sem henta bæði greiningunni og manneskjunni sem skal meðhöndla.