“Hinar 4 árstíðir eru reglan (vafningur netsins)”

Huainanzi, Ch, 7

Árstíðirnar fjórar eru vor, sumar, haust og vetur. Nokkrir dagar í kring um hásumar mynda öxul þar sem mikil Yang orka verður til og árstíðirnar snúast um. Um þennan öxul er rætt á tvo vegu. Hann getur verið öxullinn sem allt árið snýst um og þá heitir það síðsumar eða það getur verið öxull sem snýr hverri árstíð fyrir sig og hefur áhrif á ákveðnum fjölda daga milli árstíðanna. Þannig fæst réttur dagafjöldi í árinu við útreikninga á tíma. Á hvorn háttinn sem er myndast þarna fimmta árstíðin og hafa áhrif hennar mikla þýðingu fyrir manninn.

Hver árstíð á sína orku sem er samanþjöppuð og lýsandi, Yin eða Yang, meira eða minna:
Vorið er eins og andardráttur og samsvarar sér í Viðarfrumaflinu. Sólin er aflið sem lætur viðinn vaxa og hin einstaka hegðun vorsins er vöxtur.
Sumar er fullkomnun vaxtar og samsvarar sér í Eldsfrumaflinu. Hin einstaka hegðun sumarsins er að færa hlutina í átt til fullkomnunar.
Haust er það afl sem hefur vaxið til fullnustu, hefur fullorðnast og sáð sér. Haust samsvarar sér í Málmfrumaflinu og er hin einstaka hegðun haustsins söfnun og uppskera.
Vetur samsvarar sér í Vatnsfrumaflinu, þar sem lífið hefur staðnað og ískuldi komið í stað sólar. Lífsorkan hefur staðnað. Hin einstaka hegðun vetrar er að fela og geyma.
Fimmta árstíðin samsvarar Jarðarfrumaflinu og er hin einstæða hegðun þess umbreyting.

Hinar fjórar árstíðir lýsa sólinni í ferli sínu yfir daginn og yfir árið.
Vorið er morguninn – vaxandi Yang,
sumar er hádegi – Yang,
haust er þegar fer að kvölda – vaxandi Yin,
vetur er nóttin – Yin,
fimmta árstíðin er tími umbreytinga, þar sem ein árstíð og áhrif hennar breytist í aðra.

Þýðing hinna fjögurra árstíða í kínverskum lækningum

Eiginleikar og eðli árstíðanna fjögurra hafa áhrif á líkamann með milligöngu Frumaflanna fimm.

Sem dæmi þá hefur eiginleiki vors mest áhrif á þau líffæri, líkamssvæði og líkamseiginleika sem tilheyra Viðarfrumaflinu, þ.e. Lifur og Gallblöðru, bæði líffæri og orkubrautir, sinar og sveigjanleika vöðva, augu og skap. Eiginleiki vors hefur einnig áhrif á þá sjúkdómsvalda sem birtast á vorin hvort sem það eru farsjúkdómar eins og veirur og sýklar eða eiginlegir sjúkdómar sem byrja á þessum tíma.

Sjúkdómar sem myndast í tengslum við Viðarfrumaflið hafa í sér eiginleika vorsins, hins rísandi Yang, vaxandi og öflug áhrif sem geta valdið því að sjúkdómurinn breytist hratt og getur farið um líkamann eins og veðurfar vorsins. Til þess að ná tökum á þannig sjúkdómum þarf meðferðin við þeim að vera í samræmi við eðli þeirra.

Eiginleiki sumars hefur mest áhrif á þau líffæri, líkamssvæði og líkamseiginleika sem tilheyra Eldsfrumaflinu, þ.e. Hjarta, Smágirni, Hjartaverndara, Þrjá hitara, líffæri og orkubrautir, æðar, tungu og geð.

Eiginleiki síðsumars hefur mest áhrif á þau líffæri, líkamssvæði og líkamseiginleika sem tilheyra Jarðarfrumaflinu, þ.e. Milta og Maga, líffæri og orkubrautir, vöðva, munn og getu okkar til að læra og muna.

Eiginleiki hausts hefur mest áhrif á þau líffæri, líkamssvæði og líkamseiginleika sem tilheyra Málmfrumaflinu, þ.e. Lungu og Ristil, líffæri og orkubrautir, húð, nef og eiginleika okkar til að dæma og syrgja.

Eiginleiki vetrar hefur mest áhrif á þau líffæri, líkamssvæði og líkamseiginleika sem tilheyra Vatnsfrumaflinu, þ.e. Nýru og Þvagblöðru, líffæri og orkubrautir, bein, eyru og viljastyrk.