Lungun hafa 7 megin hlutverk:
1. Stjórna Qi og öndun
- Lungun ná í Qi úr loftinu með öndun.
- Qi framleiðsla fer að miklu leyti fram í Efri Brennara, þaðan sem því er svo dreift um líkamann með aðstoð Lungnanna.
2. Stjórna orkurásum og blóðrásum
- Lungun hafa yfirumsjón með réttu flæði Qi og Blóðs um allar rásir líkamans.
3. Stjórna flæði orku út á við og niður á við
- Lungun stjórna flæði orku og vökva út á við til húðarinnar.
- Lungun stjórna flæði orku og vökva niður á við til Nýrnanna.
4. Halda reglu á vatnsleiðum líkamans
- Lungun hafa áhrif á útbreiðslu og flæði Líkamsvökva um allan líkamann.
- Lungun hafa áhrif á losun þvags úr líkamanum.
5. Stjórna húð og líkamshári
- Vegna áhrifa Lungna á Líkamsvökva hafa Lungun áhrif á heilbrigði hársins og húðarinnar.
6. Opnast upp í nef
- Lungun fá það Qi sem fæst með öndun í gegnum nefið.
7. Hýsa Po
- Á Po er litið sem Yin hluta sálu okkar, þann hluta sem ræður mestu um hvernig við finnum fyrir umhverfinu bæði andlega og líkamlega.
Lungun sinna augnablikinu og hverfulleikanum og heilbrigð Lungu leyfa okkur að upplifa hvert einasta augnablik sem fullkomið. Lungun eru stundum kölluð „viðkvæma líffærið“ vegna þess hve mikil áhrif hversdagslegir atburðir hafa á þau. Þetta getur komið fram í andadrætti, sem kvefpest eða sem skammlífar tilfinningar.
Lungun eru mest útvortis af öllum Yin líffærunum og eru því kölluð landamæri líkamans. Þau tengja líkamann við hið ytra, umhverfið, umheiminn. Þau sækja utanaðkomandi loft og færa það inn í líkamann og skila út óhreinindum með útöndun. Lungun geta því verið viðkvæm fyrir umhverfinu og myndað óþol/ofnæmi fyrir mismunandi þáttum umhverfisins eins og t.d. fyrir dýrum, frjókornum og mat. Lungun stjórna svæðinu milli vöðva og húðar sem kallast „útvortis“ svæði líkamans. Utanaðkomandi sjúkdómsvaldandi þættir koma inn í líkamann í gegnum þetta svæði Lungnanna. Ef Lungun eru veikburða þá ná þau ekki að verja líkamann fyrir þessum sjúkdómsvaldandi þáttum sem ná þá að herja innvortis í líkamann. Þau stjórna einnig húðinni sjálfri, svitakirtlum, líkamshári og nefinu, sem er allt staðsett „útvortis“.
Lungun stjórna Qi og öndun
Þetta er mikilvægasta hlutverk Lungnanna. Hér er átt við bæði öndun Lungnanna og frumuöndun. Í Lungunum mætist Matar-Qi Miltans og Loft-Qi sem Lungun sækja með öndun. Saman mynda þau Zong-Qi sem er í raun Qi brjóstkassans. Zong-Qi aðstoðar Lungu og Hjarta við að knýja áfram Qi og Blóð til útlima og að dreifa því um allan líkamann. Með hjálp Yuan-Qi frá Nýrunum verður Zong-Qi að Zhen-Qi sem hringsólar um líkamann, annarsvegar í formi Wei-Qi (Varnar-Qi) sem verndar og vermir útvortis svæði líkamans og hins vegar í fomri Ying-Qi (Næringar-Qi) sem nærir innvortis líffærin. Þetta sýnir okkur hvernig Lungun stjórna í raun öllum tegundum Qi í líkamanum og hvernig ójafnvægi Lungna getur valdið Qi skorti allstaðar í líkamanum.
Lungun stjórna sérstaklega Wei-Qi (Varnar-Qi) sem hringsólar á „útvortis“ svæði líkamans, svæðinu milli húðar og vöðva. Wei-Qi vermir húð og vöðva og ver líkamann fyrir utanaðkomandi sjúkdómum og pestum. Sterkt Lungna-Qi dreifir Wei-Qi út á við til þessa svæðis og heldur reglu á svitaholum líkamans, þetta veitir okkur góða vörn gegn utanaðkomandi sjúkdómsvaldandi þáttum.
Ef Lungna-Qi er veikt verða svitaholurnar of „opnar“ og þar með verður of mikil svitnun, svitinn lekur út og partur af Wei-Qi fer með. Þetta minnkar viðnám líkamans gegn utanaðkomandi sjúkdómsvaldandi þáttum og manneskjan verður kvefsækin. Svæðið milli vöðva og húðar getur einnig verið of „lokað“, þá er ekki nægur sviti og ef utanaðkomandi sjúkdómsvaldandi þættir komast inn í líkamann þá bregst manneskjan yfirleitt harkalega við með miklum hita.
Lungun anda að sér hreinu Qi, hringsóla því um líkamann og skila síðan frá sér óhreinu Qi við útöndun. Þegar Lungun eru heilbrigð er öndun jöfn og regluleg. Þegar Lungun eru í ójafnvægi geta komið upp einkenni á borð við hósta, andnauð eða astma. Lungna ójafnvægi verður þó ekki krónískt nema með samspili annara líffæra.
Samvinna Nýrna og Lungna samræma öndun. Við innöndun senda Lungun Qi niður til Nýrnanna sem grípa Qi-ið. Þess vegna er sagt að Nýrun stjórni innöndun en Lungun útöndun. Ef Lungun ná ekki að ýta Qi niður á við til Nýrnanna geta komið upp einkenni á borð við astma, hósta, bjúg og lítið þvag. Að sama skapi geta svipuð einkenni komið upp ef Nýrun standa sig ekki í að grípa Qi.
Stjórna orkurásum og blóðrásum
Lungun stjórna Qi og þar með stjórna þau flæði Qi inni í æðum og orkubrautum. Qi knýr Blóðið áfram inni í æðunum og Ying-Qi (Næringar-Qi) flæðir inni í orkubrautunum samkvæmt kínversku klukkunni.
Ef Lungna-Qi er heilbrigt, er gott Qi- og Blóðflæði um líkamann og nægur hiti í útlimum.
Veikt Lungna-Qi veldur lélegu Qi- og Blóðflæði svo orkan nær ekki að knýja Blóðið áfram til útlima, sem verða kaldir, þá sérstaklega hendur.
Líkamsvökvar
Kínversk læknisfræði segir að vökvi í fljótandi formi streymi niður á við en vökvi í formi gufu eða misturs fljóti upp eða hringsóli. Gruggugur vökvi fari niður en hreinn vökvi fari upp og/eða út á við.
Lungun eru efri uppspretta líkamsvökva. Þau hjálpa til við hreyfingu og umbreytingu á vökvanum og dreifa honum um allan líkamann. Þau úða vökva (í formi misturs) út á við, til svæðisins milli húðar og vöðva, þar sem hann hringsólar og gefur húðinni og líkamshárunum raka. Ef Lungun ná ekki að úða vökvanum út á við geta komið upp vandamál við öndun. Lungun senda einnig Líkamsvökva niður til Nýrnanna sem taka svo hluta af þessum vökva og senda hann aftur upp í formi gufu sem gefur Lungunum raka. Lungun senda einnig Líkamsvökva niður til Þvagblöðrunnar sem losar hann út sem þvag. Ef Lungun skortir Qi geta komið upp vandamál við þvaglosun, þá eru Lungun ekki nógu sterk til að senda Qi og Líkamsvökva niður á við. Að sama skapi hjálpar niðurflæði Lungnanna Ristlinum við hægðarlosun, svo Lungna-Qi skortur getur verið orsök hægðatregðu. Ef Líkamsvökvar Lungnanna komast ekki niður á við, safnast þeir fyrir í Lungum og brjóstkassa og geta valdið hósta, andnauð og þrýstingi í brjóstkassa ásamt bjúgi á efri hluta líkamans. Niðurflæði Lungnanna á Qi og Líkamsvökva og dreifing þeirra á út á við, sér til þess að öll líffærin fái Qi, Blóð og Líkamsvökva.
Lungun stjórna húð og líkamshári
sem eru bæði á ysta lagi líkamans (svæði Lungnanna). Lungun næra húð og hár með Qi og Líkamsvökvum sínum sem þau dreifa út til þeirra. Þegar dreifing Lungnanna út á við er í jafnvægi eru húð og hár heilbrigt. Ef dreifing Lungnanna út á við er í ólagi kemur þurrkur í húð og hár verður þurrt og brothætt.
Nefið er beintengt Lungunum
það er leið loftsins til og frá Lungunum. Þegar Lungun eru í góðu lagi hefur loftið greiðan aðgang til og frá Lungunum og lyktarskyn er gott. Loftið kemst hinsvegar ekki jafn vel leiða sinna þegar Lungun eru í ójafnvægi, þá getur leið loftsins stíflast. Önnur Lungna einkenni tengd nefinu eru nefrennsli, hor, skert lyktarskyn og í alvarlegri tilfellum geta verið öndunarerfiðleikar og flöktandi nasir.
Lungun stjórna röddinni
vegna þess að raddmyndun og virkni Lungnanna eru mjög tengd. Þegar Lungun eru full af orku verður röddinn sterk, þegar lungun eru veikburða verður röddinn það sömuleiðis.
Tilfinningaleg einkenni
Áhyggjur og sorg hafa mikil áhrif á Lungun. Áhyggjur hnýta Lungna-Qi og veldur þyngslum yfir bringu, andnauð og stífum öxlum. Sorg tæmir Lungna-Qi og veldur vægri andnauð og þreytu, fölva, daufri rödd, jafnvel með vælutón. Þessar tilfinningar geta leitt til Qi stíflu í bringu. Sömuleiðis getur fólk fundið fyrir sorg þegar Lungna-Qi er í ójafnvægi t.d. þegar það er kvefað, hvort sem það er innihaldslaus sorg eða gömul/bæld sorg sem leitar upp á yfirborðið.
Andinn - Po
Lungun hýsa Po, sem er talinn vera Yin hluti sálu okkar og Hun (andi Lifrarinnar) er Yang hluti sálu okkar. Po myndast við getnað og við dauða verður hann eftir með líkamanum á meðan Hun flýtur upp (til himna). Po erfist frá móðurinni við getnað og er nátengdur Kjarnanum (Jing) sem við erfum frá báðum foreldrum okkar. Po og Kjarninn sjá um líkamlegan þroska fóstursins á meðgöngu en Po er sagður „koma og fara“ með Kjarnanum, m.ö.o. flytur hann Kjarnann til fóstursins. Á fyrstu mánuðum ævinnar nærir svo Po móðurinnar Po barnsins. Hann er tengdur líkamanum út allt lífið, Kjarninn og Po minnka svo með aldrinum og við dauða þagna þeir báðir. Po er því líkamleg sál sem gerir líkamanum kleift að hreyfa sig og framkvæma hlutverk sín. Hann sér um alla starfsemi líkamans og sérstaklega ósjálfráðu viðbrögð líkamans eins og öndun, hjartslátt, blóðþrýsting, meltingu ofl.
Po er ábyrgur fyrir öllum okkar líkamlegu skynjunum, jafnvel verkjum og kláða. Hann er ábyrgur fyrir heyrn, sjón, lyktarskyni og snertingu. Þegar Po er í jafnvægi eru skynjanir okkar eðlilegar. Með árunum minnkar bæði Po og Kjarninn og skynjanir okkar skerðast. Po stjórnar því einnig hvernig við skynjum umhverfið okkar, hvort við sjáum og upplifum heilleikan og samheldnina í heiminum, hvort við sjáum fullkomnu fegurðina á jörðinni og hvort við náum að meðtaka innblástur og innsæi. Í ójafnvægi á fólk oft erfitt með að sjá þessa hluti og finnst heimurinn og það sjálft ekki vera nóg.
Þar sem að Po er einungis tengdur þessum eina líkama, í þessu eina lífi, þá tengist hann okkar lægra sjálfi, hann er sá hluti sálu okkar sem geymir sterku mannlegu hvatir okkar. Po er hvatvís og ótaminn og íhugar ekki orsakir. Þess vegna er Po stundum kallaður „dýra sálin“.
Allar tilfinningar hafa áhrif á Po, ef hann er óheilbrigður getur manneskjan verið annaðhvort tilfinningalaus eða histerísk. Po er þó sérstaklega viðkvæmur fyrir áhyggjum og sorg sem ekki er búið að vinna úr t.d. sorg sem er bæld niður eða sorg sem er gleymd, jafnvel ómeðvituð, en birtist í líkamlegum kvillum tengdum Lungunum. Við bælingu þessara tilfinninga dregst Po saman og manneskjan getur upplifað öndunarerfiðleika eins og andnauð og önghljóð, fengið útbrot á húð eða exem, hnúta í brjóst og stíflur um líkamann. Á andlegu hliðinni gæti hún upplifað þunglyndi og leiða, haldið sig til baka og ekki lifað lífinu til fulls. Hún gæti átt erfitt með að sleppa, verið rugluð í rýminu og gleymin. Ef stækkun verður á Po getur manneskjan hinsvegar upplifað kvíða, þráhyggju og óhóflegar áhyggjur ásamt öndunarerfiðleikum á borð við önghljóð og hósta, óhóflegan kláða í húð og sársaukafull útbrot með kláða.
Po í ójafnvægi getur ríghaldið í óþarfa „hluti“, bæði andlega, líkamlega og efnislega, í stað þess að halda aðeins í það sem hann lífsnauðsynlega þarf og sleppa öllu óþörfu. Heilbrigður Po sleppir þeim sársauka og tilfinningum sem hann upplifir í stað þess að halda í þær. Ef við höldum fast í neikvæðar upplifanir hefur það skerðandi áhrif á líkamsstarfsemina.
Lungun upplifa þannig auðveldlega missi og löngun. Löngun til að fylla upp í tómarúmið sem myndast þegar við missum einhvern eða eitthvað sem er okkur kært. Inn- og útöndun, stækkun og samdráttur. Öndun er talin vera birtingarmynd Po. Hugleiðsla róar Po og tengir hann við öndunina. Með innöndun fáum við næringu og með útöndun skilum við öllu því sem við þurfum ekki lengur á að halda.