Hjartað stjórnar Blóði og æðum og sér um hreyfingu blóðs um líkamann. Það stjórnar svitnun líkamans, þ.e. það sér til þess að líkamsvökvinn "leki" ekki óeðlilega hratt út með svitanum heldur virki sem eðlileg kælingarleið líkamans. Hjartað hýsir Shen, sem er samnefni yfir gáfur, hæfileika, gleði og meðvitund og nærir tunguna, bragðskynið og málfarslega tjáningu.
Hjartað hefur 6 megin hlutverk:
1. stjórnar Blóðinu
- umbreyting á matar-Qi í Blóð á sér stað í Hjartanu
- Hjartað sér um hreyfingu á Blóði um líkamann
2. stjórnar æðum
- ástand æða fer eftir Hjarta Qi og styrk Hjartans
3. sýnir sig í litarhætti húðar
- Hjartað stjórnar Blóði og æðum og sýnir sig þess vegna í litarhætti húðar
4. hýsir Shen
- Shen sem hugurinn, þ.e. samnefni yfir gáfur, hæfileika og meðvitund
- Shen sem samnefni yfir alla andlega eiginleika mannsins (Shen, Hun, Po, Yi og Zhi)
5. opnast upp í tunguna
- Hjartað stjórnar tungubroddi og bragðskyni
- Hjartað stjórnar málfarslegri tjáningu og hlátri
6. stjórnar svitnun
- Hjarta Yang og Qi stýrir dagsvitnun
- Hjarta Yin stýrir nætursvitnun
"Hjartað hýsir Shen". Það tryggir að vilji, ætlun, hugsun, íhugun, næmni og meðvitund sé til staðar og í "réttum" tengslum við umheiminn, bæði í tíma og rými. Hjartað ber ábyrgð á viðeigandi hegðun, tímabærum samskiptum og því að manneskjan falli að því samhengi sem hún er í. Það að sýna tilhlýðilega virðingu, vera hjálpsamur, hugsunarsamur eða tilfinningasamur er einungis dyggð þegar augnablikið er rétt. Shen tryggir það að viðbrögð manneskjunnar séu rétt á réttu augnabliki.
Þegar Andi Hjartans er truflaður þjáist manneskjan af svefnleysi, taugaveikluðum viðbrögðum við aðstæðum og óviðeigandi hegðun. Óþægindartilfinning gagnvart fólki og aðstæðum hefur oft með Hjartað að gera, svo og einkenni eins og taugaveiklun, svitakóf, skjálfti og roðnun. Þegar Andi Hjartans er heill tengist manneskjan lífinu með háttvísi og nærgætni í samskiptum sínum við aðra.
"Hjartað opnast upp í tunguna og sýnir sig í litarhafti húðar". Það að geta valið orð sín vel og að orð manns túlki nákvæmlega það sem við viljum tjá tengist Hjartanu, svo og það að tjá sig með viðeigandi svipbrigðum og á geðfelldan hátt í samskiptum.
Tengsl Hjartans við Blóðið hefur ekki bara með heilbrigði æða og blóðs að gera heldur er Hjarta Blóð einnig talið "umvefja" Andann og gera honum kleift að aftengjast á friðsælan hátt. Þannig getur manneskjan sofnað og sofið. Skammtímaminni hefur einnig með Hjarta Blóðið og Shen að gera því Hjartað tengir manninn við augnablikið. Hreyfing þess tengist aðstæðum og fellur að samhenginu.