Púlsgreining

Fyrsti læknirinn sem fjallaði um púlsgreiningu á skipulagðan hátt var Wang Shuhe, sem var uppi um 300 árum fyrir Krist. Ritverk hans um púlsgreiningu varð þekkt undir nafninu Mai Jing og þó að ætíð hafi þótt erfitt að skilja verk hans þá hlutu þau verðskuldaða viðurkenningu á sínum tíma. Mai Jing hefur síðan verið þýtt og einfaldað af mörgum þekktum læknum og rithöfundum. Aðgengilegra rit um púlsgreiningu var síðar skrifað af einum merkasta náttúrufræðingi og nálastungulækni Kínverja Li Shi Zhen (1518-1593). Rit hans, Pulse diagnosis, í þýðingu Hoc Ku Huynhs nýtur virðingar og er ein af betri kennslubókum í púlsgreiningum.

Markmið og aðferð púlsgreiningar

Markmið púlsgreiningar, eins og annarrar sjúkdómsgreiningar er að fá sem nákvæmastar upplýsingar um hvað er á seyði í líkamanum, upplýsingar um hvað það er sem valdið hefur sjúkdómnum, hvernig megi laga það sem úrskeiðis hefur farið, og hverjir möguleikarnir séu á lækningu. Samkvæmt Kínverskum lækningum getur púlsinn gefið til kynna hvort sjúkdómur sé heitur eða kaldur, hvort um sé að ræða ofgnótt á orku eða skort á orku, hvort sjúkdómurinn liggi grunnt eða djúpt o.s.frv. og til þess að læknirinn geti greint rétt þarf hann að fylgja ákveðnum reglum um púlsatöku og síðan að túlka púlsinn eftir hefðbundnum aðferðum og formúlum.

Þó svo að í kínverskum læknaritum sé rætt um marga staði á líkamanum þar sem finna megi púlsa er venjan að taka púlsinn á hinum hefðbundna stað, við úlnlið. Þrír fingur eru lagðir á ytri slagæð (sjá mynd) þar sem sláttur æðarinnar er fundinn með því að nota tvenns konar þrýsting; nær engan þrýsting sem hægt og rólega vex til að verða léttur þrýstingur (þannig finnst yfirborðskraftur æðarinnar slá upp í húðina), síðan aðeins þyngri þrýsting til að finna púlsformið sem síðan vex í þunga þar til æðin tvístrast næstum því undan þrýstingum. Með léttari yfirborðsþrýstingnum finnst Yang líffæri þess staðar sem þrýst er á púlsinn og með þéttari þrýstingnum er fengin tilfinning fyrir Yin púlsinum. Með þessum hætti finnur læknirinn 6 púlsa á hvorri hendi, eða 12 í allt. Þeir sýna, hvor um sig, heilbrigði hinna 12 aðallíffæra mannsins og orkubrautanna 12 sem eru tengiliðurinn milli orku og líffæra.

pulsar_hendur_2

Fyrir utan hina hefðbundnu 12 púlsa talar kínversk læknisfræði um skiptingu úlnliðs í þrennskonar dýpt, þ.e. hin 9 púlssvæði. Þannig myndar hver dýpt púlsanna
reiti þar sem staðsetning og eðli sjúkdóma getur fundist. Þessir níu-svæða reitir skiptast í Cun (sjá mynd af úlnliðspúlsum) sem sýnir þind upp að hvirfli, Guan sem sýnir svæðið frá nafla til þindar og Chi sem sýnir svæði líkamans frá nafla til ilja. Það svæði á púlsunum sem finnst með minnstum þrýstingi lýsir
tilfinningaþáttum, þáttum sem sitja yst í líkamanum, í húð og í ytri, eða Yang líffærum og orkubrautum. Mið svæðið, sem finnst með miðlungs þrýstingi lýsir þannig brennslu í líkamanum og dýpsta svæðið, sem finnst með mestum þrýstingi á æðina lýsir því hvað er á seyði í beinum og innstu líffærum.

Þættir sem hafa áhrif á Púlsinn

Árstíðirnar fjórar: púlsinn er dýpri á veturna og grynnri, eða ofar á sumrin og vorin, svo og eru eiginleikar hinna mismunandi púlsa breytilegir eftir árstíðunum
Tími: púlsarnir eru missterkir samkvæmt líkamsklukkunni.
Kyn: púlsar karlmanna eru eðlilega sterkari en púlsar kvenna og hjá karlmönnum eiga púlsar vinstri handar að vera sterkari en púlsar hægri handar og öfugt hjá konum. Þetta er vegna þess að púlsar vinstri handar sýna kraft blóðsins og þar sem konur hafa reglulegar blæðingar hafa þær eðlilega minni blóðkraft.
Starf: þeir sem vinna erfiðisvinnu eða stunda íþróttir ættu að hafa sterkari púlsa.
Matur: ef manneskjan hefur nýlega borðað mun Maga púls og hugsanlega Milta púls vera sterkari en ella. Aðrir púlsar geta virkað veikari fyrir bragðið.
Vestræn læknislyf geta truflað púlsgreiningu.

Eiginleikar púlsa

Samkvæmt Li Shi Zhen eru 27 grundvallarpúlseiginleikar sem lýsa bæði eðlilegum og óeðlilegum eiginleikum púlsanna 12. Hver og einn af hinum 12 púlsum getur lýst einum eða fleyrum eiginleikum.
Hvern og einn af hinum 27 eiginleikum má einnig finna í einum eða fleirum af hinum níu reitum. Li Shi Zhen talar einnig um að hver og einn eiginleiki geti fundist sem par við annan, sem gefur okkur 486 einfaldar samsetningar af púlseiginleikum. Þannig getur nákvæm púlsgreining gefið lækninum mjög nákvæma lýsingu á staðsetningu og eðli allra sjúkdóma, sem aftur auðveldar og gerir nákvæmari alla meðferð.

Pulsgreining

Púlsgreining sem aðstoð við aðrar tegundir sjúkdómsgreiningar

Á síðustu árum hafa verið unnar óteljandi rannsóknir á gildi og notkun púlsgreiningar til sjúkdómsgreiningar. Í þessum rannsóknum hefur verið notast við bæði sérhannaðan rafeindabúnað svo og sérfræðinga í púlsgreiningu og hafa niðurstöður allra verið hliðhollar kenningum þeirra sem skráðu púlsgreiningar frá upphafi. T.d. hafa einar niðurstöður sýnt að víraður púls sem finnst sem sleipur og/eða hraður merki oft versnun á sjúkdóm og/eða myndun krabbameins. Þegar sleipur og hraður púls, víraður og hraður púls, eða veikur og hraður púls finnst hjá krabbameinssjúklingum eftir uppskurð þykir sterk ástæða til að athuga hvort eitthvað af meininu sitji eftir.
Í rannsókn á mikið veikum lifrarbólgusjúklingum með skorpulifur og lifrarkrabbamein sem var unnin í Taiwan kom í ljós að meirihluti sjúklinga var með veikan púls á vinstri Chi og Cun staðsetningu, sem eru staðsetningar sem segja til um heilbrigði Hjarta, Smágirnis, Nýrna og Þvagblöðru. Þessi líffæri og orkubrautir veikjast hjá lifrarbólgusjúklingum vegna stíflna sem myndast í Lifrarorku við veikindin.

Önnur not fyrir púlsgreiningu

Auk þess sem nota má púlsgreiningu til þess að finna hver og hvar veikleikinn er er þessi aðferð notuð af nálastungulæknum til þess að ganga úr skugga um hvort nálar sem notaðar eru í meðferð hafi náð réttum árangri. Þá er hlustað á púlsinn strax eftir ísetningu nálanna. Ef púlsinn breytist ekki er líklegt að nálarnar hafi ekki komið við réttu orkupunktana eða að þær þurfi að hreyfa betur til þess að tilætluðum árangri sé náð. Í kínverskum læknaritum er einnig sagt frá því að öll rétt meðferð, hvort sem hún er með nálum, jurtum, nuddi eða öðrum leiðum eigi að breyta púlsunum, þó ekki sé nema til skammst tíma og ef ekki þá sé meðferðin ekki sú sem best getur unnið á viðkomandi veikleika.

Púlsgreining er notuð af öllum læknum sem stunda Kínverskar og/eða Ayurveda lækningar.