Arnbjörg Linda Jóhannsdóttir

arnbjorg_lindaÞegar ég byrjaði að vinna við vestrænar grasalækningar á Íslandi keypti ég mér tvær ungar aspasplöntur. Þetta var árið 1988. Ég hafði þá numið grasalækningar við School of Phytotherapy í Englandi í þrjú og hálft ár. Yngsta dóttir mín var ógetin og sú elsta níu ára. Miðdóttir mín var eins árs. Ég hafði lesið um að aspas breytti jákvæðum, og þar af leiðandi niðurdrepandi jónum, í neikvæðar, heilbrigðar og örvandi jónir svo ég stillti þeim upp við hliðina á sætinu sem ég ætlaði fólkinu sem vildi leita til mín. Plönturnar dafna vel enn þann dag í dag og fólk fær sér enn sæti í stólnum sem ég ætlaði því.

Ég starfaði við grasalækningarnar í tvö ár, nógu lengi til þess að sjá að vestræn læknisfræði var full af nöfnum og skilgreiningum á sjúkdómum en furðu fátæk af skýringum um uppruna á líkamlegu ójafnvægi. Fyrstu tvö árin sem ég vann við óhefðbundnar lækningar var ég dugleg að leita eftir svörum hjá öðrum, bæði hér heima og erlendis, sem mér þótti að væru mér vitrari. Sá sem ég leitaði mest til var nálastungulæk
nir og meðferðartæknir í kínverskum fræðum hér á landi. Hann var sá eini af þeim sem ég leitaði til sem virtist komast næst því að hafa í fræðum sínum svarið við uppruna ójafnvægis líkamans. Svör hans leiddu mig áfram til þess að læra kínverska læknisfræði og nálastungur.

Ég hóf nám í kínverskri læknisfræði og nálastungum árið 1990 við International College of Oriental Medicine í Englandi og nýtti mér þau fræði við grasalækningarnar strax við upphaf námsins. Ég byrjaði svo að stunda nálastungur þegar ég lauk námi mínu árið 1994.

Kínversk læknisfræði og heimspeki heillaði mig strax í upphafi námsins og ég hef getað nýtt mér þennan hafsjó af visku bæði í lífi mínu og starfi. Ég verð ævinlega þakklát fyrir það. Það hefur verið draumur minn frá því ég kynntist fræðunum að miðla þessari þekkingu til annara og er þessi netsíða vonandi upphafið að því og ég vona að skrif mín hér verði til þess að fólk skilji líkama sinn, starfsemi hans og heilbrigði betur.

Arnbjörg Linda Jóhannsdóttir, Lic.ac. Dip.phyt.