Þreyta

Nú á tímum er þreyta eða orkuleysi orðið eitt algengasta sjúkdómseinkenni sem fólk á Vesturlöndum kvartar undan þegar það leitar sér lækninga. Stundum er þreyta eða orkuleysi hluti af öðrum sjúkdómum en oft á tíðum er það stærsta vandamálið ef ekki það eina sem fólk kvartar um. Það geta verið margar ástæður fyrir þreytu og samkvæmt kínverskri læknisfræði geta ójafnvægi og orkuskortur í líffærunum verið orsakavaldurinn. Til skýringar á líffærunum sem líffærakerfum læt ég meðfylgjandi töflu fylgja hér með:

Þreyta_tafla

Með þetta í huga er auðveldara að skilja að manneskja sem þjáist til dæmis af Nýrna orkuskorti er með veikari bein, getur þjáðst af liðagigt, heyrir ver eða þjáist af eyrnatengdum sjúkdómum eins og jafnvægisleysi eða suði í eyrum og getur þjást af kvíða. Manneskja með Milta orkuskort er aftur á móti með veikari vöðva og getur verið haldin þráhyggju og ofhugsun.

Oftar en ekki orsakast þreyta af skorti á orku eða Blóði í einu eða fleiri líffærum en jafnframt er ekki óalgengt að þreyta orsakist af ofgnótt orku eða orkustíflum.

Þreyta sem orsakast af ofgnótt orku eða orkustíflum í líffærum er vegna eftirfarandi:

Lifrarójafnvægis eða Lifrar-orkustíflu
Raka eða slímsöfnunar í líkamanum

Helstu orsakir þreytu vegna orkuleysis í líffærum eru:

Lungna, Milta eða Hjarta-orkuskortur
Hjarta, Milta eða Nýrna Yang skortur
Hjarta, Lifrar eða Milta Blóð-orkuleysi
Lungna, Hjarta, Maga, Lifrar eða Nýrna-Yin skortur

Margar leiðir gagnast í meðhöndlun við þreytu, meðal annarra nálastungumeðferð, grasalækningar, næringarmeðferð, vestræn lyf, rétt matarræði og hreyfing, góð og regluleg hvíld og hugleiðsla, en mikilvægast er að greina orsakir þreytu rétt til þess að geta unnið á henni og náð aftur eðlilegum lífskrafti.

Þreyta sem stafar af ofgnótt

Lifrarójafnvægi og Lifrar-orkustífla

Lifrin á að sjá um að allt orkuflæði líkamans sé í jafnvægi og er Lifrin talin vera eins konar stjórnandi orkuflæðis allra hinna líffæranna. Lifrarorkan er jafnframt sú orka sem er viðkvæmust fyrir streitu, sem veldur stíflun og ójafnvægi í flæði Lifrar-orkunnar. Í nútíma þjóðfélagi er Lifrarójafnvægi mjög algeng orsök sjúkdóma og einkenni þessa ójafnvægis fara oft saman við önnur form af ójafnvægi.

Þegar Lifrarorkuójafnvægi eða orkustífla veldur þreytu er þreytan alltaf verri seinni part dags. Henni fylgja iðulega einhverjir skapbrestir, eins og pirringur, reiði og jafnvel þunglyndi og líkamleg óþægindi eins og þensla í kvið, sinadráttur, krampar í innyflavöðvum og fótapirringur. Þreytan lagast við hreyfingu, þó einungis tímabundið, og versnar við álag og streitu. Líkaminn leitast við að laga þessa tegund ójafnvægis með innvortis hreyfingu og þess vegna eru mikil andvörp oft einkennandi fyrir þessa tegund þreytu.

Til þess að laga Lifrarorkuójafnvægi þarf manneskjan oft að skipta bæði um lífsstíl og lífsviðhorf, forðast streitu og álag, hreyfa sig reglulega með því að ganga, synda eða hjóla (lyftingar og erfiðar líkamsæfingar eru ekki ráðlagðar því þær geta verið streituvaldandi) og hugleiða reglulega. Sennilega er hugleiðsla ein áhrifaríkasta leiðin til lækninga því regluleg íhugun breytir lífsviðhorfi manneskjunnar átakalaust.

Raki og slímmyndun

Þegar talað er um raka og slím í kínverskri læknisfræði er átt við orku sem er ekki lengur tær og flæðandi heldur þykk og þung. Slím er þyngri tegund af raka og getur orðið efnislegt, sjáanlegt slím eða bjúgur eins og við þekkjum það í okkar vestrænu fræðum. Raki getur truflað öll líffærin og stíflað orku þeirra ef hann er viðvarandi og langvinnur en fyrst truflar raki Maga, Milta og Lungu.

Þegar raki veldur þreytu fylgir þreytunni þyngslatilfinning og mikil þörf til að liggja, sem er ekki til bóta því lega til lengri tíma (lengri en hálftími) hægir á allri hreyfingu á líkamsorkunni og gerir líkamanum erfiðara með að losa sig við rakann. Oft fylgir þessari þreytu óbragð í munni, þungur höfuðverkur, óskýr hugsun og svefnhöfgi.

Samkvæmt kínverskri læknisfræði á Miltað að sjá um að vinna tæra orku úr mat og drykk. Ef Miltað er veikt getur það ekki sinnt þessu starfi heldur hálfvinnur matinn í þykkari orku eða raka. Þannig stafar raki oftast af veikleika í Milta sem getur annaðhvort verið áunninn, þ.e. með slæmu matarræði eins og með neyslu á miklu af köldum og rakamyndandi mat (slímkenndur, sætur og kaldur matur og drykkir, mjólkurmatur, sætar kökur og fitusteiktur matur) til langs tíma eða að veikleikinn getur verið til kominn af öðrum ástæðum.

Til að vinna bug á þreytu sem stafar af raka þarf alltaf að styrkja Miltað, ásamt því að hjálpa líkamanum að losa sig við rakann. Það hjálpar að borða mat sem er þurr í eðli sínu eins og hirsi og smádýrakjöt og hafa bæði mat og drykk vermandi og forðast rakamyndandi mat. Hreyfing þarf að vera létt, taktvís og regluleg. Forðast skal að leggja sig eftir matinn – sem oft kallar mjög á mann í þessari tegund þreytu – því leggi maður sig eftir mat hægir það á meltingunni, kælir líkamann og veldur líklega meiri rakamyndun.

Þreyta sem stafar af orkuleysi í líffærum og líffærakerfum


Lungna orkuskortur
lýsir sér sem þreyta sem fylgir jafnan andnauð eða mæði. Manneskjan er með lága og kraftlitla rödd, föla húð og svitnar oft við minnsta álag. Viðkvæmni fyrir kvefi og alls kyns sýkingum fylgir gjarnan þessari tegund þreytu því það eru Lungun sem eiga að sjá um að verja okkur fyrir umhverfinu. Tungan er oft mjög föl á lit.

Lungna orkuskortur verður oft til eftir langvarandi veikindi og inniveru og besta leiðin til að styrkja lungun eru gönguferðir í hreinu lofti og léttar þolæfingar. Einnig skal hlífa lungunum við allri mengun.


Lungna Yin skortur
hefur svipuð einkenni og þau sem lýst er að ofan auk þess sem viðkomandi verður að auki var við þurrk í hálsi, þurran hósta, hæsi, nætursvita og roða í kinnum. Tungan verður einnig rauðari.

Ef um Lungna Yin skort er að ræða er gott að drekka mikið af grænmetissöfum og borða kælandi ávexti til að næra Yin orku lungnanna, og forðast jafnframt allan sterkan og kryddaðan mat.


Milta orkuskortur
lýsir sér sem þreyta ásamt lystarleysi, veikleika í vöðvum og útlimum, óþægindum í kvið, lausum hægðum og skorti á einbeitningu. Þótt lystarleysi sé algengt ef um Milta orkuskort er að ræða þá er jafnalgengt að fólk með þennan veikleika sæki í sykur og snakk milli mála. Tungan er oft föl með tannaförum á hliðunum.

Milta orkuskortur er algengasta orsök þreytu því Miltað er talið uppspretta orku og Blóðs í líkamanum. Það er einnig tiltölulega auðvelt að spilla orku Miltans með röngu matarræði, sérstaklega með sætum og rakamyndandi mat í óhófi og óreglu á matmálstímum. Besta leiðin til styrkingar á Milta er með réttu matarræði, þ.e. að forðast sætan og rakamyndandi mat, hafa bæði mat og drykk vermandi (bæði í eðli og efni, þ.e. nota vermandi krydd eins og kanil og engifer, drekka heit te og hafa matinn heitan) og borða ekki á milli mála.


Milta Yang skortur
lýsir sér eins og Milta orkuskortur að viðbættum kulda, bæði innvortis og í útlimum.

Milta Yang skort má bæta mikið með því að nota hitagefandi krydd í mat og drykk, eins og t.d. kanil og engifer og forðast alla kalda fæðu og drykki.


Milta Blóð skortur
lýsir sér eins og Milta orkuskortur að viðbættri mikilli þörf til að liggja, sérstaklega eftir mat og vægri tilfinningu fyrir hjartslættinum.

Milta Blóð skort má bæta með blóðaukandi mat (kjöt, sérstaklega hjörtu og lifur, þurrkaðir ávextir, sætar kartöflur, heitir grautar í morgunmat) og með vermandi mat og drykk.


Hjarta orkuskortur
lýsir sér sem þreyta sem ekki er einungis bundin við líkamann heldur er hún einnig andleg og sem uppgjöf. Önnur einkenni geta verið áreynslumæði, sterk tilfinning fyrir hjartslættinum, svitnun án áreynslu, vægt þunglyndi eða skortur á gleði og fölur litarháttur á húð. Tungan getur verið föl með skoru fyrir miðju, sérstaklega fremst á tungunni.


Hjarta Yang skortur
lýsir sér líkt og Hjarta orkuskortur nema hvað öll einkenni eru sterkari og alvarlegri. Einnig fylgir Hjarta Yang skorti alltaf mikil kuldatilfinning samfara þreytunni ásamt þyngslatilfinningu fyrir brjósti.

Matarræði og hreyfing duga ekki sem eina meðhöndlunin við þessari tegund þreytu heldur þarf aðstoð sérfræðinga til að ná bata.


Hjarta Blóð skortur
lýsir sér sem þreyta sem er verri um miðjan dag (Hjarta orkan á að vera sterkust milli 11.00 og 13.00). Henni fylgir tilfinning fyrir hjartslættinum, lélegt minni, svefnörðugleikar og miklar draumfarir sem trufla svefninn, svimi og fölur litarháttur hörunds og vara.

Hjarta Blóð skort má oftast rekja til langvarandi tilfinningalegra vandamála eins og langvarandi sorgar eða leiða. Oft er undirliggjandi kraftleysi Milta orku til staðar.

Vegna þess hversu tengt Hjartað er mannsálinni og tilfinningu okkar fyrir æðri mætti er hægt að styrkja Hjarta orku og Blóð með hugleiðslu, samveru við fólk sem manni þykir vænt um og með hlátri. Tilfinningaálag, og þá sérstaklega áhyggjur er slæmt fyrir hjartað og þess vegna getur orðið vart við bæði orkuleysi og Blóðleysi í Hjarta eftir erfiðleika í tilfinningalífinu eins og skilnað, ástvinamissi og langvarandi erfiðleika í fjölskyldu eða sambúð.


Hjarta Yin skortur
lýsir sér sem yfirgengileg þreyta, bæði líkamleg og andleg. Henni fylgir tilfinningalegt ójafnvægi og eirðarleysi, hjartsláttur, svefnleysi, minnisleysi, óróleiki, hita og svitakóf og þá sérstaklega seinni part dags og á nóttu og þurrkur í háls og munni. Tungan er rauð og oftar en ekki rauðust fremst á tungubroddi.

Hjarta Yin skortur tengist Nýrna Yin skorti og kemur oftast fyrir hjá eldra fólki sem hefur átt tilfinningalega erfitt líf. Hjarta Yin skortur getur einnig gert vart við sig hjá konum á breytingarskeiðinu og þá alltaf í tengslum við tilfinningalega örðugleika á því æviskeiði eða fyrr á ævi konunnar; einnig hjá fólki sem hefur alltaf mikið að gera (hvort sem það er gaman eða ekki) og hjá fólki sem er stanslaust “á ferðinni”.

Hjarta Yin skort má bæta mikið með því að skapa sér ró í lífinu, hugleiða og eiga einhvern tíma á hverjum degi þar sem maður sinnir því sem gleður hjartað og lætur annað eiga sig. Kínverskir læknar til forna ráðlögðu músík og hlátur sem lækningu við allri þreytu sem stafar af veikleika í Hjarta og ef þurfti þá sáu þeir sjálfir um að skemmta þeim sem veikir voru til að hjálpa þeim að ná bata. Auðvitað voru aðrar lækningaaðferðir notaðar samhliða en engin þeirra dugði nema gleðin væri höfð með.


Nýrna Yang skortur
lýsir sér sem mjög mikil þreyta bæði andleg og líkamleg. Henni fylgir andleysi og þunglyndi, skortur á viljastyrk, þreyta í baki og hnjám, kuldatilfinning í fótum og baki, ör þvaglát, niðurgangur, getuleysi hjá mönnum og áhugaleysi fyrir kynlífi hjá bæði körlum og konum. Ef Nýrna Yang skorturinn er mjög alvarlegur getur fólk fengið bjúg um ökklana. Tungan er oft föl og bólgin.

Nýrun eru uppspretta Yang orku í líkamanum og er samstarf þeirra mjög náið Miltanu og Milta Yang orkunni. Þess vegna er mjög algengt að Nýrna Yang skortur leiði til Milta Yang skorts og öfugt. Kraftur Nýrnanna dvínar með aldrinum og því kemur Nýrna Yang skortur oftar fyrir hjá eldra fólki, sérstaklega körlum (sem hafa að upplagi meiri Yang orku en konur).

Nýrna Yang þarf að bæta með jurtum og annarri meðferð en manneskjan sjálf getur hjálpað til með því að forðast kulda og kaldan mat og drykk, borða heitan mat og drekka heita og vermandi drykki eins og grænt te, kanilte, engifer í heitu vatni o.s.frv. sem og að hreyfa sig reglulega til að fá í sig hita.


Nýrna Yin skortur
lýsir sér sem þreyta sem hverfur ekki við stutta hvíld. Honum fylgir þreyta og særindi í mjóbaki og hnjám, þunglyndi, skortur á viljastyrk og framkvæmdarleysi, svimi og suð fyrir eyrum, lakari heyrn, þurrkur í háls og munni sem er verri seinni part dags og á næturnar, nætursviti og svefntruflanir (þ.e. að vakna upp eftir stuttan svefn). Tungan er oft rauðleit og jafnvel flekkótt.

Nýrna Yin, eins og Nýrna Yang, minnkar með aldrinum og oftar eru það konur sem finna meira fyrir þessu orkuleysi en karlar (konur eru að upplagi með meiri Yin orku en karlar). Nýrna Yin skortur orsakast oftast af of mikilli vinnu og álagi til langs tíma og þreytuna sem þessu ástandi fylgir er ekki hægt að laga nema manneskjan breyti um lífsstíl, hvílist og nærist reglulega yfir langt tímabil og forðist allt sem getur valdið henni streitu eða álagi. Vegna Yin skortsins þarf einnig að forðast alla fæðu sem er örvandi eða vermandi, eins og kaffi, súkkulaði, sterk krydd og áfengi, svo eitthvað sé nefnt.


Lifrar Blóð skortur
lýsir sér sem þreyta sem oft fylgir almenn veikleikatilfinning og vægur en langvarandi höfuðverkur. Henni fylgir einnig sinadráttur og krampar í vöðvum, náladofi í útlimum, litlar tíðablæðingar, lélegar neglur, þurrkur í húð og hári og hægðatregða. Vegna hlutverks Lifrar Blóðs til þess að næra andann verður manneskja með Lifrar Blóð skort oft hvumpin og henni bregður auðveldlega. Tungan er föl og þunn og oft þurr.

Lifrar Blóð skortur er algeng orsök þreytu hjá konum, og þá sérstaklega konum sem hafa lengi búið við miklar tíðablæðingar og/eða Milta orkuskort. Lifrar Blóð og Lifrar Yin eru samtvinnuð og skortur á öðru getur valdið skorti á hinu. Ef Lifrar Blóð skortur er lengi viðvarandi getur það jafnframt því að valda Lifrar Yin skorti orsakað stíflun á Lifrar orku sem aftur veldur þenslu í kvið, krömpum og pirringi í skapi. Þetta ástand getur einnig gert tíðablæðingar erfiðar og sársaukafullar.

Til þess að auka Lifrar Blóð þarf manneskjan að leggja sig á daginn því það að liggja færir Blóðið aftur til Lifrarinnar og nærir hana. Auk þess hjálpar að borða blóðaukandi mat og drykk.


Lifrar Yin skortur
lýsir sér sem þreyta sem eykst eftir því sem líður á daginn og honum fylgir þungur höfuðverkur. Einnig fylgir svimi, suð fyrir eyrum, þreyta og þurrkur í augum, pirringur, doði í útlimum, krampar í vöðvum og hiti í kinnum. Tungan er rauðleit og þurr.

Lifrar Yin skortur er framhald af langvarandi Lifrar-Blóðskorti og til þess að bæta upp bæði Lifrar Yin og Lifrar-Blóð er nauðsynlegt að leggja sig eftir hádegismatinn, helst í heila tvo klukkutíma, á milli 13.00 og 15.00 þegar Lifrar-orkan er minnst.


Maga Yin skortur
lýsir sér sem þreyta ásamt lystarleysi. Honum fylgir einnig þurrkur í munni og vörum, þurrar hægðir, óljós en viðvarandi verkur í efri maga og þorsti í smáa sopa af vökva. Tungan er oftast eðlileg.

Maga Yin skortur sést oftast hjá fólki eftir miðjan aldur sem hefur lifað erilsömu lífi og lengi búið við óreglu í mataræði. Reglusamt og hæglátt líferni ásamt fæðuvenjum þar sem borðað er lítið í einu en reglulega yfir daginn er besta leiðin til að ná bata.

Þreyta, eins og aðrir kvillar, stafar sjaldnast af veikleika eða orkustíflum í einu líffærakerfi heldur oftar af tveimur eða fleiri tegundum veikleika en með því að finna orsökina fyrir einkennunum sem þreytunni fylgja er alltaf hægt að fá einhverja bót og finna leiðir til lækninga.